Lífið

Bergljót Arnalds notar hljóðið í norðurljósunum fyrir sína fyrstu sólóplötu

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Leik- og söngkonan Bergljót Arnalds gefur út plötuna Heart Beat um helgina.
Leik- og söngkonan Bergljót Arnalds gefur út plötuna Heart Beat um helgina.
Leik- og söngkonan Bergljót Arnalds gefur út sína fyrstu sólóplötu um helgina sem ber nafnið Heart Beat. Platan hefur verið 14 ár í vinnslu og hefur hún lagt allt sitt í þetta persónulega verkefni. Bergljót ætlar að vera með sérstaka útgáfutónleika í Listasafni Einars Jónssonar laugardaginn 21. október næstkomandi frá 15 til 17 og verður frítt inn á safnið á meðan tónleikunum stendur.  

Jöklahljóð og hjartsláttur

„Þetta verður einstök uppákoma því við ætlum að nota alla salina í húsinu og fylla hvern sal fyrir sig af náttúruhljóðum. Blái salurinn verður til dæmis þannig að það er eins og þú sért uppi á jökli, í græna salnum færðu að heyra upptökur af norðurljósum og í rýminu þar sem ástarstytta Einars Jónssonar er má heyra hjartslátt.“

Tónleikar Bergljótar verða svo í salnum sem er fyrir miðju og mun hún flytja tónlistina af disknum. „Tónlistin mín er tengd saman og það er mikið af náttúruhljóðum í henni, sérstaklega jöklahljóð og hjartsláttur.“

Baldur Jóhann Baldursson hljóðmeistari hefur unnið með Bergljótu að upptökum á náttúruhljóðunum og mun hann líka hjálpa henni að setja upp á listasafninu og breyta því í svokallaðan hljóðheim. Tók hann upp hljóðið í norðurljósunum með tæki sem tekur upp radíóbylgjur. Hún tók upp hjartsláttarhljóð í Malmö, skordýrahljóð í frumskógi á Kúbu og svo hefur hún tekið upp á jökli, í París og svona mætti lengi telja.

Skilin á milli laga stundum óljós

„Ég er búin að vinna þennan disk í 14 ár svo ég er búin að vinna með mjög mörgum við að gera hann, margir listamenn koma að gerð hans. Eitt lagið var til dæmis tekið upp í París fyrir 14 árum síðan. Þetta er allt frá því að vera sinfónískt yfir í að vera popp.“

Fyrsta lag plötunnar samdi Bergljót útfrá hljóðinu af hjartslætti. „Diskurinn hefst á hjartslætti og svo hefst lag út frá honum og diskurinn endar síðan á hjartslætti. Hann er allur tengdur saman með náttúruhljóðum eða hjartslætti svo stundum veit maður ekki hvenær eitt lag endar og annað byrjar.“

Bergljót segir að það hafi alltaf heillað sig að það sé taktur í öllu.

„Hvernig sjórinn fellur að með flóði og fjöru, hvernig jörðin snýst og hjartslátturinn. Hvernig allt er með „rythma" og mynstr. Mörg hljóð eru líka svo lík og tengjast. Hljóðið hvernig ískristallar losna af jökli í sólinni er svipað og þegar hraun storknar í eldgosi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×