Innlent

Viðurkennir að hafa stungið mann í kviðinn í íbúð í Breiðholti

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að störfum á vettvangi árásarinnar að kvöldi 3. október.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að störfum á vettvangi árásarinnar að kvöldi 3. október. Vísir/Sindri Reyr Einarsson
Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhald yfir manni sem hefur viðurkennt að hafa stungið annan mann í kviðinn með hníf í íbúð í Breiðholti þann 3. október síðastliðinn.

Maðurinn mun sæta gæsluvarðhaldi til 7. nóvember næstkomandi en í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að maðurinn hafi játað árásina og kveðst hann hafa farið í íbúðina í þeim tilgangi að hitta manninn sem hann réðst á og stinga hann.

Í úrskurðinum er sagt frá skýrslu vitnis hjá lögreglu sem var á vettvangi þegar árásin átti sér stað. Lýsti vitnið því að hann hafi verið ásamt hópi fólks í íbúðinni þegar 4 til 5 menn hafi sprautað „meisi“ framan í vitnið.

„Hafi vitnið sagt að tveir úr hópi árásarmannanna hafi verið með kjöthnífa á lofti. Hafi þeir farið að brotaþola og sagt að hann skuldaði þeim pening og í framhaldi stungið brotaþola með hnífunum. Vitnið hafi þá sagst ætla að kalla eftir aðstoð lögreglu og þá hafi mennirnir hlaupið út. Framburður annarra vitna sem stödd hafi verið á vettvangi sé til samræmis við framangreint,“ segir í úrskurðinum.

Þá lýsti maðurinn sem ráðist var á því að hann hefði verið heima hjá félaga sínum „þegar þangað hefðu ruðst inn kærði, B og D auk tveggja annarra sem hann vissi ekki hverjir væru. Í framhaldi hafi tveir mannanna, kærði og D, ráðist að brotaþola vopnaðir hnífum og annar þeirra stungið hann. Þá hefði B í framhaldi slegið brotaþola með gítar.“

Samkvæmt áverkavottorði sem lagt var fram í málinu var árásin lífshættuleg og hefði getað valdið dauða. Er maðurinn sem hefur viðurkennt að hafa stungið mann grunaður um tilraun manndráps.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×