Viðskipti innlent

Spá miklum samdrætti hjá Högum

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Greiningardeild Arion banka spáir því að hagnaður smásölufélagsins Haga verði 746 milljónir króna á öðrum fjórðungi rekstrarársins og dragist þannig saman um tæplega 39 prósent á milli ára. Félagið mun birta uppgjör fyrir fjórðunginn í næstu viku.

Í afkomuspá greiningardeildarinnar, sem Markaðurinn hefur undir höndum, kemur fram að líklegt sé að fátt muni koma á óvart í uppgjörinu. Öllu athyglisverðara verði að sjá með hvaða hætti stjórnendur félagsins munu fjalla um rekstrarhorfurnar á síðari hluta rekstrarársins. Er bent á að eftir að hafa sent frá sér tvær afkomuviðvaranir í sumar, vegna samdráttar í sölu, hafi ekkert heyrst frá stjórnendum Haga í tvo mánuði. Því megi reikna með því að staða félagsins sé lítið breytt frá síðustu afkomuviðvörun.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir því að rekstrarhagnaður Haga fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta verði 1.224 milljónir króna á öðrum fjórðungi og dragist þannig saman um 32 prósent á milli ára.

Fréttin birtisti fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×