Innlent

Sætir farbanni vegna gruns um smygl á fólki

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Maðurinn sætir farbanni til 10. nóvember næstkomandi.
Maðurinn sætir farbanni til 10. nóvember næstkomandi. Vísir/Pjetur
Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að maður, sem ákærður er fyrir að hafa reynt að smygla írakskri fjölskyldu til Íslands, skuli sæta farbanni til föstudagsins 10. nóvember.

Samkvæmt dómi Hæstaréttar kom maðurinn til landsins með flugi frá Kaupmannahöfn þann 13. september síðastliðinn. Við komuna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fundust á manninum fern skilríki sem ekki tilheyrðu manninum. Um var að ræða pappíra frá Írak og Þýskalandi auk ákvörðunarpappírs frá Þýskalandi, dagsettum 8. apríl 2017, um synjun um hæli með fjórum nöfnum. Tilheyrðu pappírarnir  fjögurra manna fjölskyldu frá Írak sem kom með sama flugi til landsins.

Lagt var hald á pappírana áður en hinn ákærði hélt inn í landið. Skömmu síðar komu réttmætir eigendur pappíranna í komusal flugstöðvarinnar og sóttu um hæli.

Maðurinn var handtekinn fáeinum dögum síðar vegna gruns um smygl á fólki. Hann hefur viðurkennt að hafa borgað fyrir flugmiða fjölskyldunnar frá Íslandi til Dyflinnar. Fjölskyldan segist hafa framvísað fölsuðum rúmenskum skilríkjum á ferðalagi sínu hingað frá Kaupmannahöfn og að maðurinn hefði haft af sér skilríkin skömmu eftir innritun á Kastrup-flugvelli. Skilríkin hafa þó ekki komið í leitirnar enn.

Rannsókn á málinu er lokið en ákæra var gefin út á hendur manninum síðastliðinn föstudag. Brot af þessu tagi geta varðað allt að sex ára fangelsi. Krafan um farbann grundvallaðist á því að hinn ákærði er erlendur ríkisborgari og því hætt við að hann muni reyna að komast úr landi eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar ef honum er heimilt að fara frjáls ferða sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×