Innlent

Sjanghæ á Akureyri á válista vegna vanskila

Sveinn Arnarsson skrifar
Miðað við válista ríkisskattstjóra er Sjanghæ í vanda.
Miðað við válista ríkisskattstjóra er Sjanghæ í vanda. vísir/auðunn
Fyrirtækið Life Iceland ehf. sem á og rekur veitingastaðinn Sjanghæ á Akureyri var skráð á vá­lista Ríkisskattstjóra þann 31. ágúst síðastliðinn. Fyrirtækið komst í fréttir fyrir skömmu þegar Ríkis­útvarpið birti fréttir af meintu mansali á staðnum.

Ríkisskattstjóra er heimilt að fella virðisaukaskattskyldan aðila af virðisaukaskattskrá hafi fyrirtækið ekki staðið skil á virðisauka tvö uppgjörstímabil í röð. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir fyrirtæki þurfa að gera grein fyrir sínum málum.

Jóhannes Már Sigurðarson, lögmaður
„Hafi fyrirtæki sætt áætlun virðisaukaskatts í tvö uppgjörstímabil eða lengur er ríkisskattstjóra heimilt að fella það af virðisaukaskattsskrá. Ekki er hægt að skrá sig aftur nema fyrst sé gerð grein fyrir virðisaukaskattskýrslum og greiddur virðisaukaskattur til ríkissjóðs.“

Sjanghæ er í eigu Rositu Yufan Zhang sem hefur búið og starfað hér á landi í langan tíma. Jóhannes Már Sigurðarson, lögmaður fyrirtækisins, segir þetta ekki stórmál.

„Það geta verið nokkrar ástæður fyrir þessu,“ segir Jóhannes Már. „Það stóð til að opna veitingastað í Hafnarfirði og hún hafði unnið að opnun þess staðar. Svo urðu vanskil á leigu hjá henni og það fór í smá uppnám. Kannski gæti það verið út af því. Það hefur verið fjárhagsvandi í kringum þetta allt saman og því gæti það hafa haft áhrif. “

Mikil umfjöllun hefur verið um Sjanghæ síðustu vikur. Fréttir voru um að grunur væri um vinnumansal á staðnum þar sem starfsmenn hafi verið hlunnfarnir um laun. Eftir skoðun Einingar Iðju á gögnum staðarins hafi komið í ljós að laun hafi verið greidd samkvæmt kjarasamningum.

Síðan hafi ákvörðun verið tekin af eiganda staðarins um að stefna beri fréttamönnum Ríkisútvarpsins vegna umfjöllunar sem skaðað hafði fyrirtækið. Fréttaflutningur af meintu mansali hafi hins vegar birst eftir að fyrirtækið lenti á vá­lista ríkisskattstjóra.

Einnig segir Jóhannes líklegt að breytingar á atvinnuflokkum geti haft einhver áhrif hvað þetta varðar. Skipt var um endurskoðendur og bókara fyrir skömmu og var verið að færa atvinnuflokk fyrirtækisins. Það gæti verið ástæða þess að fyrirtækið sé nú á válista.


Tengdar fréttir

Launin reyndust tæp hálf milljón á mánuði

Sjanghæ var lokað fljótlega eftir fréttaflutning um mansalsgrun. Ekkert var hæft í þeim sögusögnum. Laun starfsmanna langt yfir lágmarkslaunum samkvæmt heimildum. Ákvörðun um hvort höfða eigi dómsmál tekin á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×