Erlent

Segir hryðjuverkaógnina aldrei hafa verið alvarlegri

Samúel Karl Ólason skrifar
Vopnaðir lögregluþjónar að störfum í London.
Vopnaðir lögregluþjónar að störfum í London. Vísir/AFP
Andrew Parker, yfirmaður bresku leyniþjónustunnar Mi5, segir hryðjuverkaógnum í Bretlandi hafa fjölgað gífurlega. Ástandið hafi ekki verið svo slæmt áður á 34 ára ferli hans. Þar að auki sé orðið erfiðara að komast á snoðir um slíkar ógnanir.

„Við erum nú með vel yfir 500 aðgerðir yfirstandandi sem snúa að um þrjú þúsund einstaklingum sem vitað er að koma að öfgastarfsemi með einhverjum hætti,“ sagði Parker í samtali við Sky News.

„Þar að auki fylgir aukin áhætta þeim sem snúa aftur eftir að hafa barist í Sýrlandi og Írak og þeir bætast við þá rúmu 20 þúsund einstaklinga sem við höfum skoðað áður vegna hryðjuverkarannsókna.“

Parker sagði þar að auki að ljóst væri að einhverjir öfgamenn hefðu komist hjá yfirvöldum og væru enn óþekktir.

Í viðtalinu sagði hann einnig að tæknifyrirtækjum bæri siðferðisleg skylda til að hjálpa yfirvöldum við rannsóknir vegna hryðjuverka og hann vildi auka samstarf þar á milli.

„Öll þessi tæknilega framþróun sem við búum yfir hjálpar einnig hryðjuverkamönnum. Ég trúi því ekki að þessi fyrirtæki vilja þær hliðarverkanir.“

Parker opinberaði einnig að í Hollandi væri starfrækt samskiptamiðstöð leyniþjónusta í Evrópu þar sem meðal annars væru upplýsingar samhæfðar. Sú miðstöð hefði komið í veg fyrir hryðjuverkaárásir í Evrópu og leitt til handtöku fleiri en tólf hryðjuverkamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×