Erlent

Uggandi eftir árekstur dróna og farþegavélar

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Drónar geta ógnað flugöryggi.
Drónar geta ógnað flugöryggi. vísir/getty
Yfirvöld í Kanada eru uggandi eftir árekstur dróna og farþegaflugvélar sem átti sér stað í síðustu viku. Flugvélin var á leið til borgarinnar Quebec þegar áreksturinn varð en sex farþegar voru um borð. New York Times greinir frá

Engan sakaði en samgönguráðherra Kanada, Marc Garneau, segist líta málið alvarlegum augum. „Þetta hefði ekki átt að gerast, þessi dróni átti ekki að vera þarna,“ sagði hann á blaðamannafundi á sunnudaginn var.

Hann bætti við að ef flygildið hefði skollið á hreyfli vélarinnar, eða í framrúðu hennar með þeim afleiðingum að flugstjóri hennar hefði slasast alvarlega, þá hefðu afleiðingarnar getað orðið gríðarlega alvarlegar.

Dróninn flaug í 1500 feta hæð, sem er fimm sinnum hærra en reglugerðir í Kanada heimila. Að auki er óheimilt að fljúga ómönnuðum loftförum innan 5,5 kílómetra radíuss frá flugvöllum. Reglurnar voru settar fyrr á árinu og varðar brot á þeim fjársektum og/eða fangelsisvist.

Þetta er í fyrsta sinn sem árekstur verður milli flygildis og farþegavélar í landinu. Yfirvöld segja þó að vandamálið hafi verið til staðar í einhvern tíma. „Í hverri viku, næstum því daglega, sjáum við tilkynningar frá flugstjórum um dróna,“ sagði Greg McConnell, formaður samtaka flugstjóra hjá hinu opinbera í Kanada. Hann bætti við að hann hefði „beðið“ eftir því að þetta gerðist.



Drónar hafa flogið ískyggilega nálægt mönnuðum loftförum hér á landi



Vísindamenn við Tækniháskóla Virginíu sýndu fram á það fyrir tveimur árum síðan að fjögurra kílóa fjögurra spaða flygildi getur á örskotstundu eyðilagt hreyfil. Miðað var við þotuhreyfil sem var tæplega þrír metrar að þvermáli. Ekki hafa verið gerðar rannsóknir um áhrif flygilda á stærri hreyfla.

Hér á landi eru í gildi reglur um notkun dróna en samkvæmt þeim er óheimilt að fljúga slíkum loftförum innan 1,5 km frá svæðamörkum flugvalla, eða 2 km frá svæðamörkum áætlunarflugvalla, án samþykkis frá flugumferðarþjónustu. Þá má ekki fljúga dróna í meira en 130 metra hæð án sérstaks leyfis frá Samgöngustofu.

Hætta hefur skapast í einhverjum tilvikum hér á landi vegna nálægðar dróna við mönnuð loftför en í janúar á þessu ári var dróna flogið nálægt þyrlu sem var á leið til lendingar á Reykjavíkurflugvelli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×