Viðskipti innlent

Þorskverð hækkar en síldarverð lækkar

Gissur Sigurðsson skrifar
Þorskur eru veislukostur.
Þorskur eru veislukostur. Vísir/Stefán
Verð á óslægðum þorski á fiskmörkuðum hér innanlands hefur rokið upp að undanförnu eftir mikla lægð. Um síðustu áramót var verðið 290 krónur fyrir kílóið, en lækkaði jafnt og þétt úr því og fór lægst í 196 krónu í júlí.

Síðan hefur það farið hækkandi og meðalverð í síðast mánuði var 291 króna fyrir kílóið, sem þýðir 48 prósenta hækkun frá því í júlí, eða hækkun um 95 krónur á kílóið. Frá þessu er greint á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda, en þar er ekki fjallað um skýringu á þessu.

Þá eru stóru síldveiðiskipin, sem hafa verið að veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum djúpt austur af landinu og í færeysku lögsögunni, nú flest á landleið - þar sem stormur er brostinn á á miðunum.

Nú er stormur á 12 spásvæðum af 17 umhverfis landið og sjósókn því almennt lítil. Skipin eru búin að veiða tæp fimmtíu þúsund tonn, eða um það bil helming af kvótanum í ár.

Þann skugga ber á allgóða veiði að talsvert lægra verð fæst fyrir síldina nú en í fyrra. Það stafar meðal annars af því að eitthvað er til af birgðum erlendis frá vertíðinni í fyrra og að Rússar, sem voru stórir kaupendur, hafa ekkert keypt af síld héðan eftir að þeir settu innflutningsbann á íslenskarn sjávarafurðir, eftir að Íslendingar tóku þátt í viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum vegna átakanna í Úkraínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×