Erlent

Glæpir gegn mannkyni í Rakine-héraði

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Um hálf milljón múslima hefur flúið Rakhine-hérað á undanförnum mánuðum.
Um hálf milljón múslima hefur flúið Rakhine-hérað á undanförnum mánuðum. Vísir/Getty
Mannréttindasamtökin Amnesty International saka hersveitir yfirvalda í Mjanmar um glæpi gegn mannkyni í Rakhine-héraði þar sem Rohingja-múslimum hefur verið stökkt á flótta yfir til Bangladess.

Amnesty birti nýja skýrslu um ástandið í Mjanmar í dag en um hálf milljón Rohingja hafa síðustu vikur og mánuði flúið Rakhine-hérað. Skýrsluhöfundar tóku viðtöl við um 120 Rohingja sem farið hafa til Bangladess. Að auki var rætt við þrjátíu lækna sem starfað hafa í héraðinu, hjálparstarfsmenn, blaðamenn og embættismenn í Bangladess, auk þess sem stuðst var við gervihnattamyndir og upptökur frá aðgerðum stjórnarhersins sem hefur brennt fjölda þorpa í héraðinu til ösku undir því yfirskyni að vera í baráttu við hryðjuverkamenn aðskilnaðarsinna.

Sjá einnig: Skýrslu stungið undir stól að beiðni stjórnvalda

Verstu óhæfuverkin voru framin í þorpinu Tula Toli en skýrsluhöfundar segja að fjöldamorð hafi verið framið þar þann þrítugasta ágúst síðastliðinn.

Þá er fullyrt að stjórnarherinn geri engan greinarmun á almennum, friðsömum borgurum í héraðinu og vígamönnum aðskilnaðarsinna og að svo virðist sem herinn sé skipulega að reyna að flæma Rohingja-múslima úr landi, með öllum tiltækum ráðum.

Greint var frá því í gær að Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna hefði dregið til baka skýrslu um ástandið í héraðinu að beini stjórnvalda í Mjanmar.


Tengdar fréttir

Skýrslu stungið undir stól að beiðni stjórnvalda

Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna dró til baka skýrslu sem sýndi fram á hungursneyð á meðal Rohingjia-múslima í Rakhine-héraði í Myanmar, að kröfu stjórnvalda í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×