Enski boltinn

Segir Harry Kane 20 milljarða virði og vill að Real Madrid kaupi hann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ekki fara, gamli.
Ekki fara, gamli. vísir/getty
Íslandsvinurinn Ramón Calderón, fyrrverandi forseti Real Madrid, segir að spænski risinn sé skyldugur til að kaupa ofurstjörnur eins og Harry Kane, framherja Tottenham, og að vill sjá hann í búningi Real áður en langt um líður.

Kane átti skínandi leik fyrir Tottenham þegar enska liðið gerði 1-1 jafntefli á Santiago Bernabéu í gærkvöldi en Englendingurinn átti stóran þátt í markinu sem var svo skráð sem sjálfsmark á Raphaël Varane.

Fyrir leikinn var mikið skrifað um það í spænsk blöð að Real Madrid ætli sér að kaupa þennan 24 ára gamla framherja sem varð markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar síðustðu tvær leiktíðir.

„Félag eins og Real Madrid verður að vera með bestu og mikilvægustu leikmennina innan sinna raða til að fá inn nýja styrktaraðila. Það verður að halda áfram að fá inn peninga til að geta haldið sér á þessum stalli,“ segir Calderón í viðtali við Reuters.

„Svona upphæðir hjálpa þér að fjárfesta, spara og fjárfesta svo aftur. Ég býst við því að Real Madrid vilji fá Harry Kane en það fer eftir því hvað þjálfarinn hans og félagið vill gera. Hann er alveg frábær leikmaður.“

Real Madrid hefur ekki unnið kaupphlaup um leikmenn síðustu ár en félagið var orðað við Paul Pogba og Kylian Mbappé sem fóru til Manchester United og Paris Saint-Germain.

Kane myndi líklega kosta um 150 milljónir evra eða tæpa 20 milljarði króna og Calderón finnst það ekkert mál.

„Hann yrði ekki ódýr. Þegar að ég keypti Cristiano Ronaldo á 80 milljónir fannst öllum ég vera bilaður en sjáum bara hvar við erum í dag. Í dag eru 150 milljónir ekki neitt. Það er nýja normið. Það veit enginn hvar mörkin liggja í dag,“ segir Ramón Calderón.


Tengdar fréttir

Tottenham sótti sterkt stig til Madridar

Tottenham lét Real Madrid hafa fyrir hlutunum á Santiago Bernabeau í kvöld. Liðið skiptu með sér stigunum í leik sem endaði 1-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×