Viðskipti innlent

„Þotuliðið“ fær jólabjór á undan öðrum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jólabjórinn nýtur vaxandi vinsælda
Jólabjórinn nýtur vaxandi vinsælda Vísir/Anton
Bjóráhugamenn sem hafa mikinn áhuga á jólabjór geta tekið forskot á sæluna með því að fara til útlanda og heim aftur. Jólabjórinn er kominn til sölu í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli, um þremur vikum áður en hann fer í sölu í verslunum ÁTVR.

Jólabjórinn hefur notið vaxandi vinsælda á undanförnum árum og fjölgar þeim tegundum sem í boði eru á ári hverju. Frá árinu 2005 til 2015 jókst sala jólabjórs um 180 prósent. Árið 2005 voru seldir 268 þúsund lítrar en árið 2015 voru seldir rétt tæpir 750 þúsund lítrar.

Samkvæmt reglum Vínbúðarinnar má ekki selja jólabjór þar fyrr en 15. nóvember. Samkvæmt upplýsingum frá Fríhöfninni er þó ekkert sem bannar dreifingu á jólabjór til fríhafnarinnar.

Um tíu dagar eru frá því að jólabjórinn kom í fríhöfnina. Þá er ekki ólíklegt að jólabjórinn verði einnig til sölu á veitingastöðum fljótlega, enda engar reglur sem banna dreifingu á jólabjór til veitingastaða.

Þeir sem eru ekki á leið til útlanda og hafa ekki áhuga á að gæða sér á jólabjór á öldurhúsum þurfa þó að bíða fram í næsta mánuð, en líkt og áður segir fer jólabjórinn í sölu í verslunum Vínbúðarinnar þann 15. nóvember.


Tengdar fréttir

Jólabjórssala aukist um 180%

Frá árinu 2005 til 2015 jókst sala jólabjórs um 180 prósent. Árið 2005 voru seldir 268 þúsund lítrar en í fyrra voru seldir rétt tæpir 750 þúsund lítrar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×