Skoðun

Vinstri loforðin, um hvað snúast þau?

Áslaug Friðriksdóttir skrifar
Nú er hafin skörp og snörp kosningabarátta. Vinstri flokkarnir lofa öllu fögru í ýmsum málum, allt skal vera betra og fegurra undir þeirra stjórn. En hvernig birtist þessi stjórn okkur þar sem vinstri meirihluti er við völd? Í Reykjavík hafa Samfylkingin, Píratar, Vinstri græn og Björt framtíð verið við völd undanfarin ár. Barnafjölskyldur hafa svo sannarlega mátt þola ýmislegt af þeirra hálfu og það svo sannarlega ekki jákvætt.

Grunnskólinn

Vinstri meirihlutinn í borginni rak skólakerfið á þann hátt að það endaði við algjör þolmörk á síðasta ári. Eftir að vinstri meirihlutinn tók þá ákvörðun að skera niður fjármagn til skólanna hvað eftir annað með þeim orðum að ekki væri verið að skerða grunnþjónustu afhjúpaði starfsfólk skólanna borgarstjórann og hans röngu yfirlýsingar. Að sjálfsögðu var verið að skera grunnþjónustu niður. Vinstri meirihlutinn var rekinn til baka með sínar vondu fyrirætlanir, en sneri jafnharðan við og bankaði upp á með lúðrablæstri og söng og sagðist kominn til að bjarga skólunum með sérstöku fjármagni og því bæri að fagna. Þrátt fyrir að allir hafi séð að þarna var bara komið það nauðsynlega fjármagn sem meirihlutinn skar niður nokkrum mánuðum áður var þetta kynnt sem hið mesta björgunarafrek. Til að toppa þetta allt saman var kynnt að nú skyldi sett menntastefna með pompi og pragt. Með því móti gat meirihlutinn frestað öllum óþægilegum umræðum um aðgerðir í skólamálum um nokkra mánuði og skilað auðu í skólamálum.

Leikskólinn, dagforeldrar og ójöfnuður

Djúpt er á svörum í leikskólamálum. Allt of fá börn komast að í leikskólanum við 2ja ára aldurinn. Þrengt hefur verið svo mjög að rekstri skólanna að foreldrar sáu ástæðu til að grípa inn í og fengu að greiða meira fyrir mat leikskólabarnanna. Til að villa fólki sýn tók meirihlutinn þá ákvörðun að lækka enn frekar leikskólagjöldin eins og allt væri í himnalagi. Á meðan sitja tugir foreldra heima, alveg eða að hluta frá vinnu vegna þess að hvorki hefur gengið né rekið hjá vinstri meirihlutanum að bæta ástandið og biðlistarnir lengjast.

Ekki er heldur á vísan að róa með að finna dagforeldra enda hefur stefna vinstri meirihlutans verið skýr í þá átt að koma dagforeldrum í útrýmingarhættu. Dagforeldrakerfið hefði þurft að þróa og styrkja í samráði við dagforeldra og foreldra en það hefur ekki verið gert. Eins hefði að sjálfsögðu átt að jafna greiðslur milli kerfa þannig að verðið stýrði ekki ákvörðun foreldra um þjónustu. Vinstri meirihlutinn býður foreldrum því upp á þá nálgun að þeir foreldrar, sem fá mestu þjónustuna eða pláss á leikskóla, borga minnst og fá mesta niðurgreiðslu.

Þeir sem velja ódýrara úrræði, dagforeldra, fá að greiða umtalsvert meira með henni í hverjum mánuði og miklu minna er greitt niður með hverju plássi. Nú, og þeir sem eru svo óheppnir að fá enga þjónustu, þeir fá ekkert nema langvarandi dvöl á biðlista. Einhvers staðar myndi slík stefna ekki vera kölluð jafnaðarstefna, né yrði hún talin fjölskylduvæn. En svona lítur vinstri fjölskyldustefnan út.

Vinstra góðærið, hvar er það?

Að undanförnu höfum við fengið að lifa eitt lengsta hagvaxtarskeið á Íslandi. Laun hafa hækkað, vextir hafa lækkað, skuldir hafa verið greiddar niður og kaupmáttur aldrei meiri. Sveitarfélögin hafa að sjálfsögðu notið þessa hagsældarskeiðs eins og aðrir. Tekjur þeirra hafa margfaldast í takt við það að íbúar þeirra hafa hærri laun en einnig vegna þess að fasteignaverð hefur hækkað. Sveitarfélögin hafa því haft úr miklu meira fjármagni að spila en áður.

Stefna vinstri meirihlutans í Reykjavík er hins vegar skýr. Góðærið er ekki fyrir barnafjölskyldur.

 

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×