Skoðun

Mínútur um myndlist

Bjarki Bragason skrifar
Þessi brot eru hlutar af minningum um myndlistarverk sem ég hef séð, öll bara einu sinni og á frekar hraðri yfirferð um sýningar þar sem ég reyndi að ná inn sem mestu á sem skemmstum tíma, á sýningum með hundruðum verka eftir óteljandi listamenn. Samt sem áður hugsa ég um þessi verk daglega.

1. Kona spilar á forsögulega flautu fyrir fugl. Flautan fannst í fornleifauppgreftri á því svæði þangað sem fuglinn á rætur sínar að rekja og er eitt elsta hljóðfæri sem vitað er um. Dýrið hlustar á tónana, eða verður fyrir því að vera í sama rými og tónarnir, á meðan manneskjan gerir tilraunir til þess að framkalla hljóðin. Óljóst er hvort laglínan er lík því sem hljóðfærið var smíðað til þess að flytja, enda engin leið til þess að grafa þá þekkingu upp úr kandífloss-massa árþúsundanna, né eiga samskipti við fuglinn um hvort hann þekki hljóðin hundrað þúsund ættliðum seinna og eftir að hafa verið alinn í gæludýraverksmiðju. [1]

2. Í hringlaga turnbyggingu fyrrverandi fangelsis í smábæ eru litlir hamrar áfastir veggjunum, þeir höggva taktfast og endalaust í múrsteinana. Einhvern tíma, ef til vill, munu þeir ná í gegn. [2]

3. Prestur sem dæmdur var í nauðungarvist í fangabúðum nasista var skipaður til þess að sjá um plönturækt og landbúnað í fangavist sinni. Í embætti sínu og annars staðar hafði hann talað gegn stjórnvöldum og hlotið í staðinn það hlutverk að rækta jurtir í miðdepli eyðingar og dauða. Presturinn þróaði nýjar tegundir af eplum í fangabúðunum, og málaði af þeim hundruð mynda. Eitt afbrigði þessara epla er enn ræktað. Þú bítur í það og súrsætur safinn seytlar um munnvikin, eitthvert  sambland hryllings og vonar. [3]

Þessi verk eru vegna hughrifa orðin hluti af glærunni sem ég horfi í gegn um, festust í heilanum eins og grjót sem kemst ekki í gegn um möskva. Kannski eru slík andartök lík því að vera unglingur, þar sem breytingar gerast svo hratt að klukkutímar eða dagar geta skilgreint heilu tímabilin og alla hugsun manns.

Innbyrðing á slíkum verkum getur breytt áhorfandanum örlítið, eða heilmikið. Oftast fer slíkt fram í kyrrþey, að listamanninum óafvitandi. Það að færa fólki verkfæri til þess að endurmeta heimssýn, upplifa og skilgreina í gegnum áhorf eða þátttöku í listaverki er starf sem byggir á því að senda skilaboð út í heiminn og vita, eða ekki, að það getur skilað sér strax, eða eftir áratugi í volki um beyglaðar og klístraðar víddir hugans. Þess vegna er dagur eða mánuður myndlistar eins konar þakkargjörð fyrir það sem manni hefur verið gefið, vettvangur til þess að berjast fyrir því að vegur myndlistar aukist í okkar samfélagi sem skilgreinir verðmæti frekar eftir því hvort hægt sé að bræða þau eða virkja, og mínúta til þess að rifja það upp að listaverk hafa raunveruleg áhrif á mann og eru leynt og ljóst hreyfiafl í samfélaginu.

Góðan dag.

[1] Allora and Calzadilla, Raptor's Rapture, 2012

[2] Rebecca Horn, Das gegenläufige Konzert [Concert in Reverse], 1987/97, Skulptur Projekte Münster 1987

[3] Korbinian Aigner, Apples, 1912-1960s

 

Höfundur er myndlistarmaður, lektor og fagstjóri BA náms við Myndlistardeild Listaháskóla Íslands.


Tengdar fréttir

Spekúlantinn á Degi myndlistar

Björn Th Björnsson taldi listina nákvæmustu loftvog þjóðfélagslegra hræringa, þannig að með því að banka í glerið mætti lesa af listinni loftþrýstinginn í samfélaginu; sjá ástandið eins og það er í dag og spá fyrir um hvernig það muni verða.

Hugleiðingar á degi myndlistar

Síðastliðið vor flutti ég erindi á ráðstefnu Sambands íslenskra myndlistamanna. Þar komst ég að þeirri lögfræðilegu niðurstöðu að mannréttindabrot fælist í því að myndlistamönnum væru ekki greidd laun fyrir sína vinnu.




Skoðun

Sjá meira


×