Skoðun

Einkavæðum innviði víðar

Guðmundur Edgarsson skrifar
Samtök iðnaðarins birtu nýverið skýrslu þar sem fram kom að um 400 milljarða vantaði í uppbyggingu innviða hér á landi. Nefnd voru dæmi eins og vegakerfið, hitaveitur og sorphirða auk ýmissa fasteigna á vegum hins opinbera. Tvennt vekur athygli í tengslum við umrædda skýrslu frá sjónarmiði frjálshyggju.

Markaðurinn byggir líka upp innviði

Annað er að orðið innviðir er á engan hátt bundið við opinbera geirann. Frjálsi markaðurinn gegnir nefnilega lykilhlutverki í uppbyggingu innviða og ýmiss konar grunnþjónustu fyrir almenning. Margvíslegir mikilvægir innviðir koma í hugann í þessu samhengi eins og matvöruverslanir, bensínstöðvar, netþjónusta, bílasölur, tölvuverkstæði, fatabúðir, flugfélög, farsímaþjónusta, líkamsræktarstöðvar og skóverslanir svo fáein dæmi séu nefnd. Það er því langur vegur frá að orðið innviðir sé bundið við opinbera geirann eingöngu.

Innviðir á markaði í góðu standi

Hitt er hin athyglisverða niðurstaða skýrslunnar að einungis opinberir innviðir hafa verið vanræktir, svo rækilega að þeir hafa verið látnir grotna niður um hundruð milljarða króna árum og áratugum saman. Í skýrslu Samtaka iðnaðarins eru nefnilega hvergi nefnd dæmi um að innviðir á markaði hafi drabbast niður, t.d. að verulega hafi skort á viðhald og uppbyggingu í matvörugeiranum eða á sviði farsímaþjónustu. Það kemur heldur ekki á óvart því innviðir einkageirans hafa aldrei staðið með jafnmiklum blóma og einmitt nú.

Ástand innviða í einkageiranum er til mikillar fyrirmyndar. Það er vegna þess að eignarhald þeirra er skýrt auk þess sem þeir þróast í samkeppnisumhverfi. Því er hvati til staðar að huga reglulega að viðhaldi og uppbyggingu. Á hinn bóginn hefur innviðum á vegum hins opinbera verið illa sinnt. Ástæðan er sú að eignarhald undir ríkinu er óskýrt auk þess sem neytendur hafa ekkert val því engin er samkeppnin. Fleyg orð eins ástsælasta frjálshyggjumanns þessarar þjóðar koma því upp í hugann: Það sem allir eiga, hirðir enginn um.

 

Höfundur er kennari.




Skoðun

Sjá meira


×