Innlent

Smygl á fólki æ algengara

Stefán Rafn Sigurbjörnsson og Þórdís Valsdóttir skrifar
Smygl á fólki til Íslands hefur aukist með auknum flóttamannastraumi.
Smygl á fólki til Íslands hefur aukist með auknum flóttamannastraumi. Vísir/Vilhelm
Maður sem í gær var dæmdur í farbann vegna smygls á írakskri fjölskyldu til Ísland er ekki grunaður um mansal. Alda Hrönn Jóhannsdóttir segir að eðlismunurinn á smygli á fólki og mansali sé sá að í því síðara sé hagnýting af einhverjum toga.

Alda Hrönn gat ekki tjáð sig beint um mál mannsins sem sætir farbanni.

„Smygl er flutningur á fólki í ólögmætum tilgangi, og hann er skipulagður. Munurinn á mansali annars vegar og smygli á fólki hins vegar er að í smygli er í raun brotið gegn landslögum, þá eru lög landsins brotin til að komast á ákveðinn stað. Í mansali hins vegar er í raun hagnýting sem á sér stað og samkvæmt íslenskri löggjöf er það í kynlífstilgangi eða vinnumansal. Það er sá vinkill sem er ekki til staðar þegar við tölum um smygl á fólki,“ segir Alda Hrönn.  

Alda Hrönn segir einnig að smygl á fólki til Íslands æ algengara og eftir því sem flóttamannastraumur til landsins eykst, þá eykst smygl á fólki.

„Það er verið að greiða smyglhringjum í Evrópu fyrir að koma með fólk og fólk er að greiða fyrir aðgengi að því og fá upplýsingar, ferðaleiðir og annað,“ segir Alda Hrönn og bætir við að Europol hafi ítrekað gefið út skýrslur varðandi smygl á fólki og vinni hart að því að koma skilaboðum til aðildarlandanna um smyglleiðir og fleira.

 „Smygl á fólki getur þó leitt út í mansal og við höfum verið að sjá það líka,“ segir Alda Hrönn.

Töluverður munur er á þeim refsingum sem geta hlotist vegna mansals og smygls á fólki. Samkvæmt hegningarlögum er refsiramminn fyrir smygla á fólki sex ára fangelsi, en refsiramminn fyrir mansal er tólf ára fangelsi.

„Mansal er brot gegn manneskju en smygl er meira brot gegn landslögum,“ segir Alda Hrönn


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×