Erlent

Nítján látnir vegna lifrarbólgu A

Þórdís Valsdóttir skrifar
Yfirvöld í Kaliforníu hafa bólusett þúsundir heimilislausra fyrir veirunni.
Yfirvöld í Kaliforníu hafa bólusett þúsundir heimilislausra fyrir veirunni. Vísir/getty
Nítján manns eru látnir í Kaliforníuríki vegna lifrarbólgu A faralds. Í síðustu viku lýsti Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, yfir neyðarástandi vegna faraldsins.

Fleiri en 500 manns í ríkinu hafa smitast af veirusýkingunni síðan í nóvember á síðasta ári og eru heimilislausir stór hluti þeirra smituðu. Þetta er næst stærsti faraldur lifrarbólgu A í Bandaríkjunum síðustu tuttugu ár.

Aðalsmitleið lifrarbólgu A er með saur-munn smiti, í gegnum kynferðismök eða með snertingu við menguð matvæli eða hluti.

Meirihluti þeirra sýktu eru búsettir í borginni San Diego. Borgaryfirvöld hafa gripið til aðgerða vegna faraldsins með því að sótthreinsa götur borgarinnar með klóri og koma upp handþvottastöðum víðsvegar um borgina.

Borgaryfirvöld hafa einnig óskað eftir því að drykkjarvatn í borginni verði rannsakað til að ganga úr skugga um að ekki sé þar að finna saurgerla sem geta valdið smiti en veiran lifir lengi í vatni

Í San Diego eru fleiri en fimm þúsund heimilislausir og hafa ekki aðgengi að hreinlætisaðstöðu.

Lifrarbólgu A smit hafa einnig greinst í Los Angeles, San Francisco og Santa Cruz og yfirvöld hafa bólusett þúsundir heimilislausra.

Um það bil einn af  hverjum hundrað sem smitast af lifrarbólgu A deyja sökum hennar, samkvæmt upplýsingum frá þarlendum yfirvöldum. Hlutfallið er hærra í Kaliforníuríki og ástæðan er rakin til þess hversu margir heimilislausir hafa smitast af veirunni.

Fyrr á árinu var greint frá því að. Ekki hefur sést aukning á sjúkdómnum hér á landi á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×