Erlent

Forsætisráðherra segir Galizia hafa verið sinn helsta andstæðing

Samúel Karl Ólason skrifar
Mótmæli hafa átt sér stað á Möltu eftir morðið.
Mótmæli hafa átt sér stað á Möltu eftir morðið. Vísir/AFP
Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, segir blaðakonuna Daphne Caruana Galizia hafa verið sinn helsta andstæðing. Hann heitir þó að koma höndum yfir morðingja hennar. Elsti sonur Galizia segir ríkisstjórn Möltu vera meðseka í morðin hennar, en hún hafði skrifað mikið um spillingu embættis- og stjórnmálamanna á Möltu.

Galizia var myrt á mánudaginn þegar bíll hennar sprakk í loft upp skammt frá heimili hennar. Hún hafði fjallað ítarlega um Panamaskjölin og aflandsfélag sem tengdist Muscat.

Sjá einnig: Fordæmir Möltu og kallar mafíuríki



„Það er ólíðandi að í landi eins og Möltu deyi einhver vegna starfs síns. Í tilfelli Caruana Galizia, fyrir það sem hún skrifaði,“ hefur AFP fréttaveitan eftir Muscat. Hann ræddi við nokkra fjölmiðla á Möltu í dag. „Hún var líklega stærsti andstæðingur minn, hún sótti að mér þegar ég leiddi stjórnarandstöðuna. En það var starf hennar.“



Aðspurður út í hver gæti hafa myrt hana sagði Muscat að auðveldast fyrir sig væri að benda á núverandi stjórnarandstöðu. Galizia var að skrifa um núverandi leiðtoga hennar, Adrian Delia, og hafði jafnvel sakað hann um fjárþvætti, vændi og meira.

Delia hefur kallað eftir því að Muscat segi af sér og segir honum hafa mistekist að tryggja öryggi Galizia.

Talið er að sprengiefnið Semtex hafi verið notað til að sprengja upp bíl hennar. Hollenskir rannsakendur lentu á Möltu í gær og aðstoða við rannsóknina. Yfirvöld hafa einnig kallað eftir aðstoð frá Alríkislögreglu Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×