Innlent

Áhrifavaldar á Íslandi safna fyrir Róhingja

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Móðir og þrjú börn úr þjóðflokki Róhingja á flótta.
Móðir og þrjú börn úr þjóðflokki Róhingja á flótta. Nordicphotos/AFP
Íslenskir áhrifavaldar á samfélagsmiðlum standa um þessar mundir að söfnun á vegum UNICEF. Safnað er fyrir börn þjóðflokks Róhingja en hundruð þúsunda úr þjóðflokknum hafa flúið ofsóknir í Mjanmar undanfarna mánuði.

„Börnin hafa orðið fyrir skelfilegu áfalli. Þau eru vannærð, meidd og hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar. Ástandið er gríðarlega alvarlegt og því mikilvægt að peningarnir skili sér á réttan stað sem fyrst,“ segir Sara Mansour, saramansour96 á Snapchat og einn aðstandenda söfnunarinnar.

Sara Mansour, einn aðstandenda söfnunarinnar.Mynd/Sara
Sara segir að söfnunin fari fram með þeim hætti að í hvert skipti sem fyrirfram ákveðin upphæð safnast muni einn eða fleiri áhrifavaldar gera eitthvað sniðugt.

„Til dæmis fara í vax, fá sér tattú, raka af sér hárið, syngja uppi á sviði og svo framvegis.

Söfnunin er mikilvæg vegna þess að hingað til hefur ástandið fengið litla sem enga athygli. Við viljum vekja vitund fólks um málefni á sama tíma og við getum skemmt áhorfendunum,“ segir Sara enn fremur.

Fyrsti áhrifavaldurinn í röðinni er Ingólfur Grétarsson, goisportrond á Snapchat og umbrotsmaður á Fréttablaðinu. Hann fer í vax á fótleggjum og nára ef 150.000 krónur safnast.

Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að senda SMS-ið UNICEF í síma 1900 og greiða þannig 1.900 krónur eða með því að leggja inn á söfnunarreikninginn 701-26-102050, kennitala 481203-2950. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×