Samstarf

5.000 bílfarmar af brotamálmi

Hringrás kynnir
Daði Jóhannesson er framkvæmdastjóri Hringrásar.
Daði Jóhannesson er framkvæmdastjóri Hringrásar. MYNDIR/ANTON BRINK
Hringrás er eitt elsta endurvinnslufyrirtæki landsins. Hringrás sérhæfir sig í söfnun málma til endurvinnslu en tekur einnig á móti spilliefnum, notuðum hjólbörðum og raftækjum frá fyrirtækjum og einstaklingum.

„Hringrás hefur nú safnað málmum til endurvinnslu í nálægt sextíu ár en hefur í seinni tíð einnig bætt við sig spilliefnum og raftækjum,“ segir Daði Jóhannesson, framkvæmdastjóri Hringrásar.

Hann segir gott ástand í efnahagslífi landsmanna blasa við á móttökustöðvum Hringrásar.

„Notuðum bifreiðum, sem koma til endurvinnslu, hefur fjölgað um 30 prósent á milli ára og eru notaðir bílar um 20 prósent af því brotajárni sem kemur til Hringrásar. Þá er aukning í endurvinnslu á heimilistækjum og tölvubúnaði einnig mikil,“ segir Daði.

Spilliefni, hjólbarðar og rafgeymar eru fjarlægðir úr bílflökum, flökin eru pressuð og flutt í fullkomnar endurvinnslustöðvar í Norður-Evrópu.
Hringrás tekur við um 500 notuðum bílum í hverjum mánuði, sem koma frá bílapartasölum, fyrirtækjum og einstaklingum.

„Samstarfsaðilar okkar sjá um að fjarlægja endurnýtanlega varahluti og spilliefni úr bílunum, sem síðan eru pressaðir og klipptir í flutningseiningar, og skipað úr landi til frekari endurvinnslu,“ upplýsir Daði.

Hjá Hringrás starfa 50 manns, á myndinni er einn þeirra að hluta í sundur raftæki.
Umhverfisvæn staðsetning skiptir máli

Staðsetning Hringrásar í Klettagörðum hefur oft verið til umræðu og þá sérstaklega vegna eldsvoða sem orðið hafa á svæðinu. Segir Daði erfiðleika í rekstri undanfarinna ára hafa valdið því að ekki hafi verið staðið nægilega vel að forvörnum.

„Fyrrverandi eigandi fyrirtækisins varð gjaldþrota snemma á árinu en nýir eigendur Hringrásar leggja mikla áherslu á að eldvarnir séu í forgangi og að magn brennanlegra efna sé viðráðanlegt.“

Kælitæki eru tæmd af óson-eyðandi kælimiðlum. Miðlunum er síðan fargað í samræmi við gildandi reglur um slík efni og málmar endurunnir.
Eigendur Hringrásar eiga nú í viðræðum við Reykjavíkurborg um framtíðarstaðsetningu fyrirtækisins. Daði bendir á að þótt starfsemin sé í sjálfu sér ekki mengandi fylgi henni umtalsverðir flutningar.

„Hringrás tekur við um 5.000 bílförmum af brotamálmi og spilliefnum frá höfuðborgarsvæðinu á hverju ári. Góð staðsetning dregur þannig verulega úr neikvæðum umhverfisáhrifum og erum við mjög vongóð um að skipulagsyfirvöld taki vel í umleitanir okkar, enda hlýtur að vera keppikefli borgarinnar að hámarka endurvinnslu á úrgangsefnum sem falla til á svæðinu,“ segir Daði og er bjartsýnn á framtíð Hringrásar.

„Endurvinnsla er eitt mikilvægasta framlag mannsins til umhverfisverndar, og hefur fyrirtækið á að skipa öflugum hópi starfsmanna sem stöðugt vinna að því að finna leiðir til að hámarka endurnýtingarhlutfall þess hráefnis sem fyrirtækið meðhöndlar.“

Greinin er unnin í samvinnu með Hringrás, sem er með aðstöðu í Klettagörðum í Reykjavík, á Akureyri og Reyðarfirði. Sjá nánar á hringras.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×