Erlent

2017 stefnir í að verða næsthlýjasta árið frá upphafi mælinga

Kjartan Kjartansson skrifar
Kortið sýnir hitafrávik í september miðað við meðaltal 20. aldar.
Kortið sýnir hitafrávik í september miðað við meðaltal 20. aldar. NOAA
Meðalhiti jarðar í september var sá fjórði hæsti frá því að mælingar hófust á 19. öld. Samkvæmt nýjustu tölum Haf- og loftslagsstofnunar Bandaríkjanna (NOAA) stefnir í að árið ár verði það næsthlýjasta í sögu beinna mælinga.

Tölur NOAA eru í samræmi við þær sem bandaríska geimvísindastofnunin NASA birti fyrr í vikunni að þessu leyti. Samkvæmt NOAA var september í ár aðeins á eftir sama mánuði árin 2015, 2016 og 2014. Tíu hlýjustu septembermánuðir í sögu mælinga NOAA hafa allir verið eftir síðustu aldamót.

Áður hafði Goddard-geimrannsóknastöð NASA (GISS) greint frá því að meðalhiti yfirborðs jarðar var 0,80°C yfir miðgildi hita í septembermánuði frá 1951 til 1980.

Lágmarksútbreiðsla hafíssins á norðurskautinu eftir sumarið var sú áttunda minnsta frá því að gervihnattamælingar hófust við lok 8. áratugs síðustu aldar, að sögn NOAA. Á suðurskautinu var útbreiðsla hafíssins sú önnur minnsta í september frá upphafi mælinga.

Hitamælingar NOAA og GISS ná aftur til um það bil ársins 1880.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×