Innlent

Freyju var hafnað áður en mat hafði verið lagt á hæfni hennar

Birgir Olgeirsson skrifar
Freyja Haraldsdóttir.
Freyja Haraldsdóttir. Vísir/Ernir
Stefna Freyju Haraldsdóttur gegn Barnaverndarstofu snýst um það að ákvörðunin um að neita henni um að gerast fósturforeldri var tekin áður en hún hafði setið námskeið þar sem mat fer fram á hæfni til að vera fósturforeldri.

Þetta segir lögmaður Freyju, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, í samtali við Vísi.

Greint var frá því í Fréttablaðinu í morgun að Freyja hefði stefnt Barnaverndarstofu vegna ákvörðunarinnar um að neita henni um að gerast fósturforeldri.

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir.
Sigrún Ingibjörg segir málið ekki snúast um hvort Freyja megi taka barn í fóstur, heldur hvernig henni var mismunað þegar ákvörðunin var tekin án þess að Freyja hafði farið í gegnum mat líkt og aðrir umsækjendur.

Freyja hafði fengið jákvæða umsögn frá fjölskylduráði Garðabæjar um að taka barn í fóstur. Ef umsækjendur fá jákvæða umsögn frá bæjarráði í sínu sveitarfélagi þá eiga þeir að sitja námskeið sem nefnist Foster-Pride.

Þar fer fram mat á því hvort viðkomandi sé hæft fósturforeldri. Ef þau skilyrði eru uppfyllt fer fram þjálfun í því að annast fósturbörn.

„Málið gengur út á það að hennar umsókn er hafnað áður en matið fer fram á því hvort hún sé hæf og að hvaða leyti hún sé hæf. Þetta snýst um það hvort hún fái sömu málsmeðferð og allir aðrir þegar hún sækir um að gerast fósturforeldri, þar sem metið er hvort einhver sé hæfur til þess.“

Barnaverndarstofu er því stefnt til að hnekkja þeim úrskurði.

Hún segir niðurstöðuna ekki rétta út frá stjórnsýslu lögum og að rannsóknarskylda sé á stjórnvöldum að kanna mál til hlítar. „Það getur varla talist fyrir hendi þegar viðkomandi hefur ekki farið í gegnum sömu málsmeðferð og aðrir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×