Erlent

Ardern nýr forsætisráðherra Nýja Sjálands

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Talað er um Jacindamania eða Jacindu-brjálæði en persónufylgi hennar er mikið.
Talað er um Jacindamania eða Jacindu-brjálæði en persónufylgi hennar er mikið. Vísir/AFP
Jacinda Ardern, formaður verkamannaflokks Nýja Sjálands, verður næsti forsætisráðherra landsins. Tæpur mánuður er liðinn frá því að gengið var til kosninga í Nýja Sjálandi. Jacinda er 37 ára gömul og verður þar með yngsti leiðtogi landsins í 150 ár.

Winston Peters tilkynnti í dag að flokkur hans „New Zealand First“, eða NZP, muni starfa með flokki Ardern. Flokkur Peters er þjóðernisflokkur og hefur beitt sér fyrir hertri innflytjendalöggjöf. Flokk­ur Græningja mun einnig styðja rík­is­stjórn­ina.

Það kom í hlut NZP að mynda ríkisstjórn og lengi vel var óljóst hvort flokkurinn vildi starfa með Verkamannaflokknum eða Þjóðarflokknum. Þjóðarflokkurinn fékk flest sæti eða 56 sæti alls. Verkamannaflokkurinn fékk 46 sæti, NZF 9 sæti og Græningjar 8 sæti.

Bill English, formaður Þjóðarflokksins hefur sagt að þar sem hans flokkur hafi fengið 44,4% greiddra atkvæða verði flokkurinn öflugasti stjórnarandstöðuflokkur sem landið hefur séð.

Ardern tók við sem formaður Verkamannaflokksins eftir slæmt gengi flokksins í skoðanakönnunum. Talað er um Jacindamania eða Jacindu-brjálæði en persónufylgi hennar er mikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×