Erlent

Sendi Trump skilaboð undir rós

Samúel Karl Ólason skrifar
George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP
George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, fordæmdi þröngsýni, samsæriskenningar og lygar í ræðu í dag þar sem hann sendi Donald Trump, núverandi forseta, skilaboð undir rós, án þess að nefna Trump á nafn. Hann hvatti Bandaríkjamenn til að hafna kynþáttafordómum og lofaði hnattvæðingu í ræðunni, sem hann flutti í George W. Bush stofnuninni í New York.

„Þröngsýni vex ásmegin og stjórnmál okkar virðast viðkvæmari gagnvart samsæriskenningum og hreinum lygum,“ sagði Bush. Hann sagði þröngsýni og rasisma vera gegn gildum Bandaríkjanna og nauðsyn væri að bæta kennslu borgaralegra gilda í skólum Bandaríkjanna.

Þá sagði Bush að ungir Bandaríkjamenn þyrftu jákvæðar fyrirmyndir.



„Einelti og fordómar í opinberu lífi setur þjóðartóninn. Það opnar á hatur og fordóma og stefnir siðferðislegri kennslu barna okkar í voða.“

Eins og bent er á í frétt Guardian hefur Bush að mestu leyti haldið sig frá stjórnmálum frá því að hann yfirgaf Hvíta húsið en fjölskylda hans hefur deilt við Trump um langt skeið.



Jeb Bush keppti við Trump í forvali Repúblikanaflokksins í fyrra og hvorki Bush yngri né eldri létu sjá sig á landsþingi flokksins í júlí í fyrra þegar Trump fékk tilnefningu flokksins formlega. Þar að auki neituðu þeir að kjósa hann í nóvember.

Bush mætti þó á innsetningarathöfn Trump og eftir ræðu forsetans mun Bush hafa sagt: „Þetta var skrítinn skítur“, eða „That was some weird shit“, um ræðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×