Bíó og sjónvarp

Eldfjöll, skjalafals og langir göngutúrar

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Werner Herzog hefur nokkrum sinnum komið til Íslands áður, hann hélt til að mynda á Konungsbók á áttunda áratugnum.
Werner Herzog hefur nokkrum sinnum komið til Íslands áður, hann hélt til að mynda á Konungsbók á áttunda áratugnum. Vísir/Anton Brink
Into the Inferno er nýjasta mynd Herzogs og því fjallar fyrsta spurningin um eldfjöll og hvað það sé við þau sem heilli hann svo mikið.

„Eldfjöll hafa heillað mig mjög lengi. Árið 1976 gerði ég myndina La Soufrière á eyjunni Guadeloupe og hún fjallaði um gríðarlega hættulegt ástand sem ríkti þar á þeim tíma. Það er gríðarlegur kostur við eldgos að þar birtist hrikalegur náttúrulegur kraftur sjónrænt og það er alls ekki hægt að hunsa hann sé maður kvikmyndagerðarmaður.

Við gerð Into the Inferno notaði ég svipmyndir sem ég fékk á Íslandi, frá Eyjagosinu. Það gos var mjög vel fest á filmu og var auðvitað gjörsamlega meiriháttar. Ótrúlegt að beint fyrir aftan húsið manns opnist logandi sprunga – það er mjög öflugt myndefni.“

Hann talar um Into the Inferno og við ræðum stuttlega um Konungsbók í tengslum við það hvernig menning, trú og eldfjöll geta tengst.

„Á áttunda áratugnum, stuttu eftir að Konungsbók hafði verið skilað aftur til Íslands, fékk ég að halda á henni – og allir í Reykjavík vissu af því á innan við tíu mínútum!“

Skjalafals órjúfanlegur hluti kvikmyndagerðar

Meðal námskeiða sem Werner Herzog kennir við Werner Herzog‘s Rouge Film School eru meðal annars skjalafals, það að dýrka upp lása og íþróttir kvikmyndagerðarinnar. Herzog segist glottandi afgreiða þessi námskeið á stuttum tíma í byrjun annar. En hann verður síðan alvarlegur þegar skjalafals berst í mál.

„Fitzcarraldo – þar sem ég flyt skip yfir fjall – hefði aldrei orðið að veruleika ef það væri ekki fyrir umtalsvert skjalafals. Ástæðan fyrir því er sú að á þeim tíma var einræði í landinu, herforingjastjórn, og ég fékk ekki að færa skipið. Ég lagði því fram fjögurra blaðsíðna leyfi fyrir þessum umsvifum og því fylgdi meira að segja undirskrift frá forseta Perú. Ég sjálfur útbjó auðvitað öll þessi skjöl og falsaði meira að segja undirskrift forsetans.

Þetta eru nauðsynlegir hæfileikar til að komast fram hjá kerfinu. Kerfið býður ekki kvikmyndagerðarfólki að stunda list sína og raunar er kerfið og bjúrókrasían náttúrulegur óvinur kvikmyndagerðarmannsins. Það er mjög nauðsynlegt að vera klárari en skrifræðið og kunna að nýta sér ákveðin glæpsamleg öfl – án þess að nokkur meiðist. Það er markmiðið – þú ferð á svig við kerfið, þú ferð á svig við herforingjastjórnina og enginn meiðist. Til þess þarf að kunna að falsa eigin skjöl meðal annars – kvikmyndagerðin veltur á því og það er náttúrulegur réttur listamannsins, náttúrulegur réttur ljóðskáldsins.“

Náttúrurétturinn minnti á söguna af Herzog þar sem hann fékk „lánaða“ myndavél úr Institute for Film Research í München. Hann segir að stofnunin hafi haft það hlutverk að lána út vélarnar til upprennandi kvikmyndagerðarmanna en hafi ekki viljað lána honum vél af einhverri ástæðu og því hafi hann bara tekið vélina. Ætlunin hafi allan tímann verið að skila henni.

„Þegar ég var búinn að skjóta fyrstu myndina kom sú næsta, svo sú næsta og svo koll af kolli. Ég áttaði mig á því að enginn tók eftir því að vélin var horfin. Sjálft hlutverk myndavélarinnar var að þjóna fólki eins og mér – svo að það var auðvitað náttúrulegur réttur minn að skjóta á hana kvikmyndir.“



Lesið bækur

Nokkur ráð fyrir unga kvikmyndagerðarmenn:

„Lesið. Ferðist fótgangandi. Ferðist frá Madríd til Kíev eða frá Boston til Gvatemalaborgar. Það margborgar sig og er mikið betra en fjögur ár í kvikmyndaskóla. Haltu þig við eigin hugsjón því að það er engin ástæða til að hræðast nokkurn skapaðan hlut.“

Ég spyr hann hvað hann sé að lesa þessa dagana og hann segir mér að hann sé mest að lesa ljóð en fyrir utan það sé það aðallega „pragmatískur lestur“ á hnausþykkri endurminningabók Gorbatsjevs og tæknilegir hluti um Sovétríkin vegna næsta verkefnis síns sem hann hefur verið að vinna í Moskvu þaðan sem hann flaug beint til Íslands.

Áður en blaðamaður nær að spyrja hann betur út í það verkefni lýkur viðtalinu skyndilega þegar honum er tilkynnt að hann verði að hendast yfir í næsta stopp. Áður en hann fer staldrar hann þó við og talar eilítið um internetið og hvernig ungt fólk, mengi sem blaðamaður fellur undir, verði að vara sig á ýmsum fölskum staðreyndum sem þar er að finna. Blaðamaður getur ekki annað en tekið undir það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×