Enski boltinn

Wenger: Erfitt fyrir alla ef Barcelona kæmi í ensku úrvalsdeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi umkringdur leikmönnum Arsenal í leik í Meistaradeildinni.
Lionel Messi umkringdur leikmönnum Arsenal í leik í Meistaradeildinni. Vísir/Getty
Vangaveltur um framtíð Barcelona í spænsku deildinni eru háværar í erlendum fjölmiðlum í dag eftir að Josep Maria Bartomeu, forseti Barcelona, talaði um það í gær að Barcelona þyrfti möguleika að flýja spænsku deildina.

Framtíð Barcelona í spænsku deildinni er vissulega í uppnámi eftir að Katalóníubúar kusu sjálfstæði frá Spáni um síðustu helgi.

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, var spurður um þann möguleika að Barcelona kæmi inn í ensku úrvalsdeildina í framtíðinni.  Sky Sports segir frá

Wenger sló strax á létta strengi þegar hann fékk þessa spurningu og sagðist þá þurfa að fara að læra katalónsku en bætti svo við: „Ef Barcelona ætlar að koma inn í ensku úrvalsdeildina þá yrði þetta miklu erfiðara fyrir alla,“ sagði Arsene Wenger.

„Ég held samt að þetta sé nú ekki komið svona langt. Þetta er athyglisvert mál og það er ljóst að það munu koma upp fleiri dæmi því Barcelona er mjög pólitískt félag. Það verður líka fróðlegt að sjá hvernig framhaldið verið nú hjá þeim í spænsku deildinni á þessu tímabili,“ sagði Wenger.  

Hann vill samt horfa frekar norður en suður þegar kemur að því að bjóða liðum inn í ensku úrvalsdeildina á næstu árum.

„Við erum með nóg af liðum enda 20 í deildinni en ef við ætlum að fara upp í 24 lið þá þyrftum við nú að bjóða þeim skoska að koma inn í deildina áður en við förum í spænsku liðin,“ sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×