Innlent

Verslunarferð breyttist í óvænta hringferð

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Það sem átti að verða skottúr mæðginanna Ásdísar Gunnarsdóttur og Eyþórs Sigurðssonar í verslanir frá Hofi í Öræfum til Hafnar í Hornafirði á miðvikudag í síðustu viku endaði óvænt í um 1.300 kílómetra hringferð um landið vegna vatnavaxtanna á Suðausturlandi. Ásdís segir að uppákomuna hafi reynst lán í óláni því úr hafi orðið fínasta skemmtiferð með syninum, sem þau hefðu annars ekki farið.

„Á heimleið frá því að útrétta á Höfn komum við að Hólmsá á Mýrum þar sem vatnið var farið að flæða yfir veginn. Þar stoppuðu menn frá Vegagerðinni okkur og bönnuðu okkur að fara yfir. Samt voru bílar að koma að vestan þar sem ekki var búið að loka á umferð þaðan,“ segir Ásdís í samtali við Fréttablaðið. Eftir að að hafa beðið um stund ákváðu þau því að snúa aftur austur á Höfn. Um kvöldið fréttu þau að vegurinn yrði líklega ekki opnaður aftur fyrr en eftir nokkra daga og voru þá góð ráð dýr. Tóku þau ákvörðun um að gista hjá frændfólki á Höfn og leggja á hringveginn heim árla fimmtudags.

„Við gátum ekki verið að bíða á Höfn marga daga svo við lögðum af stað klukkan 6 næsta morgun, héldum austur og keyrðum sem leið liggur.“

Eftir stopp á Egilsstöðum var næsti viðkomustaður Mývatn og síðan haldið í einni beit til Akureyrar, þangað sem þau voru komin um hádegi. Á Sauðárkróki tóku þau eldsneyti og skoluðu af bílnum og héldu ferðalagi sínu áfram.

„Svo stoppuðum við ekki fyrr en við komum til Reykjavíkur. Um kvöldið vorum við komin til dóttur minnar í Hveragerði þar sem ég gisti. Þá vorum við búin að keyra um 1.000 kílómetra frá Höfn til Hveragerðis á einum degi,“ segir Ásdís um ferðalagið mikla. Þá voru eftir um 300 kílómetrar heim að Hofi. Á þriðja degi frá því að mæðginin lögðu af stað í verslunarferð til Hafnar og rúmlega 1.300 kílómetrum síðar skiluðu þau sér loks heim að Hofi á laugardaginn. Fyrir forvitna þá segir Ásdís að matvöruna sem hún keypti á Höfn ekki hafa sakað. Hún vill því síður en svo kalla þessa löngu verslunarferð hremmingar.

„Þetta endaði í skemmtiferð sem maður hefði nú sennilega ekki farið neitt fljótlega. Það má því alveg segja að þetta hafi verið lán í óláni og endað vel.“ mikael@frettabladid.is


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×