Körfubolti

Fyrirliðarnir velja sér leikmenn í sitt lið í Stjörnuleik NBA 2018

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James gæti fengið aðra fyrirliðastöðuna.
LeBron James gæti fengið aðra fyrirliðastöðuna. Vísir/Getty
NBA-deildin hefur gerbreytt fyrirkomulaginu á bak Stjörnuleik NBA en tilkynnt var um breytingarnar í gær.

NBA hefur verið að reyna að rífa upp stemmninguna í kringum Stjörnuleikinn og Stjörnuhelgina síðustu ár en margir leikjanna síðustu ár hafa ekki þótt skemmtilegir enda frekar þriggja stiga skotæfing og troðslusýning heldur en alvöru körfuboltaleikur.

Það hefur vantað meiri keppni en eftir mikið álag á leikmönnum í sjálfri deildinni þá hafa þeir ekki haft mikinn áhuga á öðru en að skemmta sér saman og passa upp á skrokkinn og kraftana í þessum Stjörnuleik.

Það var því ákveðið að gera róttækar breytingar á fyrirkomulaginu í tengslum við það hvernig er valið í sjálf Stjörnuliðin. NBA sagði frá þessu á heimasíðu sinni.

Lið Austur- og Vesturdeildarinnar heyra nú sögunni til. Tólf leikmenn komast áfram í Stjörnuleikinn úr hvorri deild en þeir spila ekki endilega í sama liði.

Nú munu fyrirliðar hvor stjörnuliðs fyrir sig velja sér leikmenn á víxl eins og á gamla skólavellinum í gamla daga. Fyrirliðahlutverkið fá þeir leikmenn sem fá flest atkvæði í kjörinu á leikmönnum í Stjörnuleikinn.

Næsti Stjörnuleikur mun fara fram í Staples Center í Los Angeles 18. febrúar á næsta ári.

Nú í fyrsta sinn mun hagnaður af leiknum fara til góðgerðamála en hvort lið mun velja sér samtök sem það mun styrkja með sínum hluta af tekjunum af leiknum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×