Enski boltinn

Fjórtán sekúndur skiptu öllu máli fyrir FIFA og endalega svarið var nei

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adrien Silva sagði bless við stuðningsmenn Sporting Lissabon um helgina.
Adrien Silva sagði bless við stuðningsmenn Sporting Lissabon um helgina. Vísir/Getty
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur hafnað beiðni enska úrvalsdeildarliðsins Leicester City um keppnisleyfi fyrir miðjumanninn Adrien Silva.

Leicester City gekk frá kaupunum á Adrien Silva frá Sporting Lissabon á síðasta degi félagsskiptagluggans, 31. ágúst síðastliðinn, en forráðamenn enska félagsins voru fjórtán sekúndum of seinir að skila öllum pappírunum inn.

Sporting Lissabon átti að fá 22 milljónir punda fyrir portúgalska landsliðsmiðjumanninn.

Fjórtán sekúndur skiptu öllu máli fyrir FIFA og Leicester City þarf nú að bíða þar til glugginn opnar aftur í janúar til að klára félagsskiptin. BBC segir frá.

Adrien Silva hefur verið í einskismannslandi síðan að þetta gerðist og hefur þurft að vera í stúkunni að þegar Leicester liðið er að spila.

Hann hefur samt fengið leyfi til að nýta sér æfingaaðstöðuna hjá Leicester til að halda sér í formi en má hinsvegar ekki æfa með liðinu.

Adrien Silva fór heim til Portúgals í síðasta mánuði til að vera með fjölskyldu sinni og hann kvaddi liðsfélagana og stuðningsmenn Sporting Lissabon um síðustu helgi á tilfinningaríkri stundu.

Adrien Silva fær nú ekki að spila með Leicester City fyrr en eftir þrjá mánuði og hann hefur misst sæti sitt í portúgalska landsliðinu.

Þetta mál gæti því orðið til þess að hann verði ekki með á HM í Rússlandi næsta sumar en spili hann vel með Leicester City eftir áramót þá gæti það verið fljótt að breytast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×