Erlent

Spá 43% vexti í endurnýjanlegum orkugjöfum til 2022

Kjartan Kjartansson skrifar
Mesti vöxturinn í framleiðslugetu á raforku í fyrra kom frá sólarorku.
Mesti vöxturinn í framleiðslugetu á raforku í fyrra kom frá sólarorku. Vísir/AFP
Framleiðslugeta endurnýjanlegra orkugjafa vex um 43% á heimsvísu næstu fimm árin samkvæmt nýrri spá Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA). Vaxtarkippur í sólarorku í Kína og á Indlandi er meginástæða þess að stofnunin spáir meiri vexti nú en í fyrra.

Tveir þriðju hlutar af viðbótarframleiðslugetu rafmagns í fyrra komu frá endurnýjanlegum orkugjöfum, alls 165 gígavött. IEA spáir að þeir muni bæta 920 GW við fyrir árið 2022, að því er segir í frétt Carbon Brief.

Spáin gerir jafnframt ráð fyrir því að Indverjar fari fram úr Evrópubúum í framleiðslugetu raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum í fyrsta skipti á fimm ára tímabilinu.

Kínverjar risarnir í sólarorku

Mesti vöxtur í orkuframleiðslu árið 2016 kom frá sólarorku. Alls bættust 74 GW við framleiðslugetu sólarorkuvera í fyrra sem er nærri því helmingsaukning borið saman við viðbótina árið á undan.

Kínverjar bera ábyrgð á stærstum hluta sólarorkunnar sem bættist við í fyrra og hafa þegar náð markmiði sem þeir höfðu sett sér fyrir árið 2020, samkvæmt skýrslu IEA. Kínversk fyrirtæki stjórna nú 60% framleiðslugetunnar á sólarsellum.

Þó að IEA hafi uppfært spá sína fyrir 2022 og geri nú ráð fyrir að endurnýjanlegir orkugjafar vaxi hraðar bendir Carbon Brief á að skýrslur stofnunarinnar hafi ítrekað vanmetið vöxt í geiranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×