Körfubolti

Gaupurnar komu fram hefndum og urðu aftur WNBA-meistarar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sylvia Fowles var kát í leikslok enda bæði meistari og kosin best.
Sylvia Fowles var kát í leikslok enda bæði meistari og kosin best. Vísir/Getty
Minnesota Lynx tryggði sér í nótt WNBA-meistaratitilinn þegar liðið vann níu stiga sigur á Los Angeles Sparks, 85-76, í hreinum úrslitaleik um titilinn í kvennadeild NBA í körfubolta.

Minnesota Lynx kom því fram hefndum eftir tap í oddaleik um titilinn á móti Los Angeles Sparks í fyrra en þetta er fjórði titill Gaupnanna frá árinu 2011.

Með þessum sigri í ár þá jafnaði Minnesota Lynx met Houston Comets en bæði félög hafa unnið fjóra WNBA-titla.

Los Angeles Sparks fékk tvö tækifæri til að tryggja sér titilinn eftir að hafa komist í 2-1 í úrslitaeinvíginu en Minnesota Lynx vann tvö síðustu leikina og þar með úrslitaeinvígið 3-2.

Sylvia Fowles var með 17 stig og 20 fráköst í leiknum og var kosin besti leikmaður lokaúrslitanna. Hún hafði áður verið kosin mikilvægasti leikmaður tímabilsins.

Maya Moore stigahæst hjá Minnesota Lynx með 18 stig og 10 fráköst en Lindsay Whalen skoraði 17 stig og gaf 8 stoðsendingar.

Allt byrjunarliðið var að skila í leiknum því Seimone Augustus skoraði 14 stig, tók 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar og Rebekkah Brunson skoraði 13 stig og tók 8 fráköst.

Candace Parker var langatkvæðamest hjá með 19 stig, 15 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 varin skot en Chelsea Gray skoraði 15 stig og gaf 8 stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×