Gagnrýni

Að hafna grimmd og gerast planta

Magnús Guðmundsson skrifar

Bækur
Grænmetisætan
Han Kang
Íslensk þýðing: Ingunn Snædal
Útgefandi: Bjartur
Prentun: Printon, Eistlandi
Kápuhönnun: Arndís Lilja Guðmundsdóttir
Síðufjöldi: 200

Rithöfundurinn Han Kang var fyrir skömmu á meðal áhugaverðra gesta bókmenntahátíðar í Reykjavík en fyrir skömmu kom út skáldsaga hennar Grænmetisætan, í íslenskri þýðingu Ingunnar Snædal, sem sumarið 2016 hlaut breytta útgáfu ef hinum virtu Man Booker bókmenntaverðlaunum. Verðlaunin komu ýmsum á óvart en ættu þó ekki að þurfa að gera það. Grænmetisætan er gríðarlega áhugaverð skáldsaga. Hún er í senn vel skrifuð og snjöll en býr um leið yfir ákveðinni menningarlegri vídd og breiðri skírskotun inn í líf fólks um víða veröld.

Grænmetisætan segir sögu hinnar ofurvenjulegu Yeong-Hye sem í kjölfar draums tekur þá ákvörðun að hætta að borða kjöt og aðrar dýraafurðir, eiginmanni og fjölskyldu til mikillar skapraunar og skammar. Kjötát er mikilvægur þáttur í kóreskri menningu í samfélagi þar sem það er einnig litið hornauga að fara á einhvern hátt á móti straumnum – að vera öðruvísi. „Konan mín brást ekki væntingum mínum, hún var algjörlega venjuleg eiginkona sem sinnti sínu án nokkurs ósmekklegs kæruleysis,“ (bls. 8) segir eiginmaður Yeong-Hye og sögumaður fyrsta hluta af þremur en hver hluti á sinn sögumann og sjónarhorn á líf og ákvarðanir aðalpersónunnar.

Grænmetisætan er saga sem á sér sögu. Hún byggir á smásögu Han Kang, Ávöxtur konu minnar, frá 1997. Höfundur hefur einnig sagt frá því í viðtölum að hugmyndin eigi sér uppruna á miða sem hún fann í gögnum ljóðskáldsins Yi Sang. Hann var fæddur árið 1910 og lést aðeins 27 ára gamall og hafði mikil áhrif á nútímabókmenntir Kóreu. Á miðanum stóð einfaldlega: „Mér finnst að manneskjur ættu að vera plöntur.“ Þetta er í raun grunnhugmyndin sem sækir á aðalpersónuna og af því leiðir vissulega ákveðin höfnun á mennskunni og allri þeirri grimmd sem henni fylgir.

Ákvörðun Yeong-Hye dregur því dilk á eftir sér og gjörbreytir ekki aðeins lífi hennar, heldur á einhvern óræðan hátt afhjúpar það ferli samfélag sem er í senn byggt á grimmd og kröfunni um einsleitni. Að auki er þetta lífsákvörðun sem heldur áfram að þróast í gegnum söguna með afleiðingum sem eru í senn eina rétta og óumflýjanlega niðurstaðan. Einfaldlega vegna þess að í ákvörðun Yeong-Hye er fólgin höfnun á ofbeldi og þráin eftir hinu friðsama lífi sem gerir ekki kröfu um að nærast á öðru lífi. Eitthvað sem vissulega á sér víða skírskotun langt umfram menningarsamfélag Kóreu og ákvörðun aðalpersónunnar. Jafnvel höfnun á grunneðli mannskepnunnar og framgangi hennar og ört vaxandi skaðlegri fyrirferð í náttúrunni. Han Kang krefur þannig lesendur sína um að leita svara við stórum spurningum sem mannkynið stendur frammi fyrir í dag en virðist í sífellu hlaupa undan og forðast með öllum ráðum. Spurningum sem eiga ótvírætt erindi til íslenskra lesenda þó svo Grænmetisætan sé langt að komin.

Grænmetisætan er gríðarlega vel skrifuð og heillandi skáldsaga. Han Kang hefur ólík stílbrigði eftir sögumönnum auðveldlega á valdi sínu, en verkið er í senn heildstætt, markvisst og krefjandi. Vönduð þýðing Ingunnar Snædal skilar blæbrigðamun á milli sögumanna og vonandi láta íslenskir lesendur ekki þessa frábæru skáldsögu fram hjá sér fara.

Niðurstaða: Mögnuð og krefjandi skáldsaga sem á brýnt erindi við samtíma okkar og hugmyndaheim.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira