Lífið

Stjörnuspá Siggu Kling – Tvíburinn: Alltaf fljótur að fara losna við pirringinn

Elsku Tvíburinn minn, þú alheimsins miðpunktur! Þú ert miðpunktur þótt þú sért bara með sjálfum þér á rigningardegi. Þú elskar músík og lígar alltaf upp á umhverfi þitt með skemmtilegum uppátækjum og kaldhæðnum húmor. Þú staldrar samt yfirleitt stutt við í partíum eða boðum því þér hættir til að leiðast og þótt þú sért mannfælinn og lokaður hefur þú samt þann einstaka hæfileika að veita öðrum andlega upplyftingu.

Það býr í þér listamaður hvað svo sem þú gerir. Engan sé ég eins þungbúinn og Tvíbura þar sem eru miklar endurtekningar á öllu. Í miklum endurtekningum muntu fyrst finna að þú verður geðstirður og pirraður. Þú ert samt alltaf fljótur að fara losna við pirringinn og öðlast gleðina aftur. Það er kannski vegna þess að þú talar mikið við sjálfan þig og notar innbyggðan kraft sálfræðinnar sem er meðfæddur hæfileiki þinn. Svo hentu þér bara í djúpu laugina – þú getur ekki drukknað.

Þú ert mjög orðheppinn en þú þarft að vera varkár með orð því að þau geta virkað eins og spjót og orð verða ekki aftur tekin. Og eftir því sem þú eldist muntu læra að verða mildari, en samt svo afskaplega orðheppinn. Þegar ég var lítil stúlka í sveit með ekkert sjónvarp (já, ég er hundgömul), óskaði ég þess svo heitt að vera orðheppin, sem þú svo sannarlega ert, svo nýttu þér það og ekki hugsa of mikið um hvað þú ætlar að segja áður en þú mætir á fund, í vinnuna eða á stefnumótið. Biddu frekar um að þú sért áfram orðheppinn því orð eru álög, sem er líka titillinn á fyrstu bókinni sem ég skrifaði.

Núna þegar veturinn gengur í garð þarftu að muna að hafa sumarið í hjarta þínu og finna út hvað tengir þig við þá tilfinningu, því þá byrja hlutirnir að gerast. Þú vinnur svo vel undir stressi að það er magnað hversu mikið getur gerst á síðustu stundu hjá þér. Svo hafðu engar áhyggjur því að þetta reddast alltaf, nýttu þér bara vel þá orku sem plánetan Mars gefur þér í október – sú orka gefur þér bæði gleði og botnlausan kraft. Í síðasta mánuði var ég að lesa um stjörnuspeki og þar kom í ljós á mörgum stöðum að Tvíburamerkið byrjar þann 20. maí; á afmælisdaginn minn. Svo ég er ekki lengur bara Naut, heldur brjálæðislega ánægður Tvíburi líka.

Í ástinni áttu erfitt með að tjá innstu tilfinningar þínar og ert hálfhræddur við að játa að þú sért ástfanginn. En þú verður að fella niður allar varnir hvað ástina varðar og leyfa þér að elska meðan ástin stoppar hjá þér því hún er svo mikilvæg. Það er þér ómögulegt að vera með maka sem þú ert að mæðra eða feðra: sem gerir allt sem þú segir eða óskar og þú stjórnar. Þá færðu leiða svo að það er þess vegna algengt að þú sért í fleiri ástarsamböndum en hin 11 merkin, en til þess að geta slakað á og leyft þér að elska þarf maki þinn að vera hörkuduglegur og stoltur.

Frægir Tvíburar: Ragnar Sigurðsson landsliðsmaður, Örn Árnason leikari, Óli Geir Jónsson plötusnúður, Bjarni töframaður, Hrund Þórsdóttir fréttakona, Össur Skarphéðinsson húmoristi, Johnny Depp leikari, Páll Magnússon fjölmiðlamaður, Kjartan Atli Kjartansson lífsspekúlant, Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Andri Freyr útvarpsmaður og Lýðveldið Ísland, Donald Trump, Þórarinn Þórarinsson blaðamaður, Bjartmar Guðlaugsson, söngvari og snillingur, Jóhanna Heiðdal lögfræðingur.



Gefðu öllum kraft, því þú ert krafturinn – Power to All Our Friends (Cliff Richards)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×