Sport

Ólympíumeistari frá London 2012 missir ÓL-bronsið sitt frá 2008

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna Tsjitsjerova með ÓL-gullið sem hún vann í London 2012. Hún heldur því en missir ÓL-bronsið frá 2008.
Anna Tsjitsjerova með ÓL-gullið sem hún vann í London 2012. Hún heldur því en missir ÓL-bronsið frá 2008. Vísir/Getty
Rússneski hástökkvarinn Anna Tsjitsjerova mun missa verðlaun sín frá Ólympíuleikunum í Peking 2008 en hún féll á lyfjaprófi þegar níu ára gamalt lyfjapróf hennar var skoðað með nýjustu tækni.

Anna Tsjitsjerova vann brons á Ólympíuleikunum 2008 en alþjóðlegi íþróttadómstóllinn hefur nú úrskurðað að Tsjitsjerova verði nú að skila bronsinu sínu. Sjá frétt á opinberri síðu Ólympíuleikanna.

Tsjitsjerova stóðst upprunalega lyfjaprófið á ÓL 2008 en þegar sýnið var skoðað aftur næstum því áratug seinna fundust anabólískir sterar í sýni hennar. Framfarir í lyfjaprófum hafa verið miklar og það eru mörg dæmi um það að hrein lyfjapróf hafi ekki verið svo hrein eftir allt saman.

Alþjóðaólympíunefndin hafði ákveðið að Tsjitsjerov yrði að skila bronsinu sínu en hún áfrýjaði til íþróttadómstólsins, CAS, sem hefur nú skilað endanlegri niðurstöðu.

Tsjitsjerova stökk 2,03 metra í úrslitum hástökkskeppninnar í Peking og setti þá nýtt persónulegt met. Í fjórða sætinu var Jelena Slesarenko landa hennar með stökk upp á 2,01 metra.

Hin belgíska Tia Hellebaut varð Ólympíumeistari með 2,05 metra stökk en Króatinn Blanka Vlasic fór líka yfir 2,05 metra en í annarri tilraun.

Það fylgir sögunni að á Ólympíuleikunum í London fjórum árum síðar þá vann Anna Tsjitsjerova Ólympíugull. Hún á því áfram verðlaun á Ólympíuleikum þrátt fyrir að þurfa að skila bronsverðlaunum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×