Umfjöllun, viðtöl og myndir: Fjölnir - ÍBV 27-27 | Theodór bjargaði stigi fyrir Eyjamenn

Einar Sigurvinsson skrifar
Theodór Sigurbjörnsson bjargaði stigi fyrir ÍBV á síðustu stundu.
Theodór Sigurbjörnsson bjargaði stigi fyrir ÍBV á síðustu stundu. vísir/ernir
Fjölnir og ÍBV skildu jöfn, 27-27, í hörkuspennandi leik í Grafavoginum í kvöld. Þetta var annað stig nýliðanna í Fjölni á tímabilinu og það sjöunda hjá ÍBV.

Heimamenn í Fjölni byrjuðu leikinn betur og fóru inn í hálfleikinn þremur mörkum yfir, 16-13. Fjölnismenn spiluðu sterka 5-1 vörn sem gestirnir í ÍBV áttu erfitt með að finna leiðir í gegnum. Leikurinn var þó hnífjafn og voru hálfleikstölurnar eina skipti leiksins þar sem annað liðið var með þriggja marka forystu.

ÍBV komu sterkari inn í síðari hálfleikinn, skoruðu næstu tvö mörk og minnkuðu muninn í 15-16. Fjölnismönnum tókst þó að halda forustunni þar til að ÍBV jafnaði á 41. mínútu, 18-18. Fimm mínútum síðar komst ÍBV yfir, 20-21 og var það í fyrsta sinn síðan í stöðunni 0-1.

Lítið skildi að á milli liðanna en Fjölnismenn voru þó örlítið sterkari og komust tveimur mörkum yfir á 52. mínútu, staðan 25-23. Gífurleg stemning var í Grafarvoginum og Fjölnismenn höfðu stúkuna með sér sem var öll staðin á fætur síðustu mínútum leiksins.

Þegar um það bil 15 sekúndur voru eftir af leiknum náði Arnar Snær að koma Fjölni yfir, 27-26. ÍBV tók hraða sókn sem endaði með klaufalegu broti hjá Björgvini Páli, beint rautt á Björgvin og ÍBV fengu víti. Theodór Sigurbjörnsson fór á punktinn og tryggði ÍBV stigið. Lokatölur 27-27 í æsispennandi leik.

Af hverju varð jafntefli?

Leikurinn var í höndum Fjölnismanna sem líta örugglega frekar á þetta sem tapað stig heldur en unnið. Á 55. mínútu fékk Kristján Örn Kristjánsson beint rautt spjald sem var töluverður missir fyrir Fjölnisliðið og á síðustu sekúndunum fengu þeir dæmt á sig víti og rautt spjald.

Það er þó ekki hægt að taka það af ÍBV að þeir hættu aldrei að berjast og miðað við framvindu leiksins mega þeir vera nokkuð sáttir með að snúa til Vestmannaeyja með eitt stig.

Hverjir stóðu upp úr?

Theodór var markahæstur í liði ÍBV með sjö mörk. Í Fjölnisliðinu voru þeir Kristján Örn Kristjánsson og Bjarki Lárusson markahæstir með 5 mörk hvor.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum var að ganga nokkuð illa með það að halda sínum mönnum inni á vellinum, sérstaklega í lok síðari hálfleiks en töluvert var um tvær mínútur og rauð spjöld. Bæði lið áttu nokkuð kaflaskiptan leik og voru of margar sóknir sem liðunum tókst ekki að enda á skoti.

Hvað gerist næst?

Fjölni bíður erfitt verkefni næsta sunnudag, þegar taplausir FH-ingar taka á móti þeim. Sama dag verður stórleikur í Vestmannaeyjum, þar sem ÍBV tekur á móti Val. Þar mætast þau lið sem var spáð efstu tveimur sætunum í deildinni fyrir mót og má vafalaust gera ráð fyrir hörkuleik.

Arnar Gunnarsson: Hefðum átt að vinna

„Vonbrigði, mér fannst að við hefðum átt að vinna leikinn. Mér fannst við spila nógu vel til þess,“ sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis, við Vísi í leikslok.

Fjölnir og ÍBV skildu jöfn í kvöld en Fjölnismenn voru yfir lengst af í leiknum. Var því Arnar heldur vonsvikin með eitt stig.

„Við förum náttúrulega í hvern leik til þess að vinna og úr því hvernig þetta spilaðist þá hefðum við átt að vinna. Mér fannst við grátlega nærri því. Samt alltaf gott að fá stig, sérstaklega eftir að hafa spilað síðasta leik mjög illa, þetta var ágætis svar eftir þann leik.“

Kristján Örn fékk beint rautt spjald þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum og var Arnar ekki sammála þeim dómi.

„Við missum Donna útaf, mér fannst að annar maður hefði átt að fá það rauða spjald. Það hafði áhrif en við spilum okkur samt í stöðu til þess að vinna. Við hefðum átt að vera klókari í síðustu sókn ÍBV.“

Það hefur verið töluverður munur á leik Fjölnis á heimavelli og útivelli. Síðustu tveir heimaleikir liðsins hafa verið mjög jafnir en síðustu tveir útileikir hafa tapast með 16 og 10 mörkum.

„Þetta eru talsverðar sveiflur. Við þurfum bara að finna það út hvort við getum spilað á útivelli. Það er stórt próf næst, FH ef ég man rétt. Við þurfum bara að sína það þar að við getum spilað á báðum stöðum. Við erum að minnsta kosti búnir að sína að það kemur enginn hingað til að ná sér í auðveld stig,“ sagði Arnar að lokum.

Arnar Pétursson: Þeir áttu skilið að taka bæði stigin

„Mér fannst við þannig séð ekkert eiga þetta skilið, svona miðað við það hvernig við spilum í 30 mínútur hér í dag. Við komum mjög illa inn í þennan leik og Fjölnismennirnir gengu á lagið. Þegar öllu er á botninn hvolft áttu þeir kannski skilið að taka bæði stigin, en við náðum í stig og við verðum að reyna að fagna því,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV í leikslok.

Leikurinn í kvöld var fimmti leikurinn í röð sem ÍBV þarf að spila á útivelli. Arnar taldi það þó ekki hafa haft nein áhrif á sína menn.

„Nei nei nei, það er engin afsökun. Við vorum bara of værukærir, við vorum of staðir og við drippluðum boltanum allt of mikið. Þetta var eitthvað sem við ætluðum ekki að gera og hefur ekkert með fimm útileiki að að gera.“

ÍBV voru að fá töluvert af tveimur mínútum dæmdar á sig en Arnar vildi þó ekkert setja út á dómgæsluna.

„Hún var fín, eins og alltaf hjá þeim félögum. Við fengum samt klárlega of mikið af tveimur mínútum í seinni hálfleik. Við vorum klaufar og vorum að láta reka okkur of auðveldlega útaf. Ég held að þetta hafi mest allt verið rétt hjá þeim, eins og vanalega hjá Antoni og Jónasi. En við vorum klaufar, fáum á okkur 11 mörk í seinni hálfleik og töluvert af þeim kom á meðan við vorum einum færri.“

Að loknum fimm umferðum í deildinni eru ÍBV með sjö stig og Arnar er nokkuð sáttur með það.

„Já já, við erum að koma okkur af stað eins og öll önnur lið og erum að reyna að bæta okkur. Leikurinn í dag var klárlega ekki bæting og eitthvað sem við þurfum að skoða, vinna úr og læra af,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV að lokum. 

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Dalhúsum í dag og tók myndirnar hér að neðan.

Arnar gefur bendingar á hliðarlínunni.vísir/ernir
vísir/ernir
Arnar og lærisveinar hans bíða enn eftir sínum fyrsta sigri í Olís-deildinni.vísir/ernir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira