Lífið

Skandinavískur stíll á Selfossi

Guðný Hrönn skrifar
Guðbjörg Ester er 27 ára Selfyssingur sem hefur brennandi áhuga á innanhússhönnun.
Guðbjörg Ester er 27 ára Selfyssingur sem hefur brennandi áhuga á innanhússhönnun. vísir/anton brink
Guðbjörg Ester Einarsdóttir starfar sem lögregluþjónn en í frítíma sínum hefur hún gaman af því að spá í innanhússhönnun. Heimili Guðbjargar og unnusta hennar er ansi flott en þeim hefur tekist að koma sér vel fyrir í nýju húsi sem þau keyptu í sumar.

„Við Árni Felix Gíslason, unnusti minn, fluttum í nýtt hús í maí. Við erum búin að vera dunda okkur við koma okkur fyrir og gera allt fínt síðustu mánuði,“ segir Guðbjörg sem hefur ástríðu fyrir innanhússhönnun.

Flest húsgögn heimilisins koma úr IKEA.vísir/antpn brink
Guðbjörg er dugleg við að breyta til á heimilinu með því að færa til hluti raða húsgögnum og stofustássi upp á nýtt. „Ég er alltaf með nýjar pælingar og nýjar hugmyndir sem mig langar að framkvæma. Það þarf ekki alltaf að kaupa eitthvað nýtt til að breyta, það er nóg að finna nýjan stað fyrir hlutina og þá kemur nýr blær á heimilið.“



Louis Poulsen-ljósið fyrir ofan eldhúsborðið er í miklu uppáhaldi hjá Guðbjörgu.vísir/anton brink
Skandinavískur stíll einkennir heimili Guðbjargar og Árna enda versla þau mikið í IKEA. „Ég kaupi nánast öll húsgögn í sænska risanum IKEA. Þær vörur hafa reynst mér mjög vel, þær eru fallegar og alls ekki of dýrar. Epal er líka í miklu uppáhaldi hjá mér, en þangað fer ég oft til að kaupa fallega smáhluti eins og ljós, kertastjaka og þess háttar. Søstrene Grene er líka í miklu uppáhaldi hjá mér, yndislegir smáhlutir á lítinn pening.“

Guðbjörg lýsir stílnum á heimilinu sem skandinavískum með mínímalískum blæ.vísir/anton brink
Guðbjörg er virk á samfélagsmiðlinum Instagram en þar deilir hún gjarnan myndum af heimili þeirra Árna. Hún vonast til að myndirnar veiti öðrum fagurkerum innblástur.

„Þegar við Árni keyptum húsið okkar byrjaði ég að leita mér innblásturs á Instagram.“

„Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir í húsinu byrjaði ég að taka myndir og deila þeim á minni Instagram-síðu og er búin að fá góðar undirtektir síðan þá. Það er það skemmtilega við þetta – að veita öðrum innblástur. Svo er þetta líka mjög góð leið til að halda húsinu alltaf hreinu,“ segir hún og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×