Lífið

Hjartað réð för

Benedikt Bóas skrifar
Rúnar Kristinsson er kominn aftur til KR.
Rúnar Kristinsson er kominn aftur til KR. vísir/anton brink
Rúnar Kristinsson er kominn heim og heldur um stjórnartaumana í KR næstu þrjú árin. Eða, hann skrifaði undir samning til þriggja ára og eins og hann hefur nú fengið að reyna þá skipast fljótt veður í lofti – sérstaklega í fótboltaheiminum. Rúnar snýr aftur í Vesturbæjarstórveldið núna þegar félagið stendur á ákveðnum tímamótum. Varla hefur verið negldur nagli í Frostaskjóli síðan 1999 og lítið hefur breyst varðandi aðstöðu undanfarin ár. Á meðan hafa Vesturbæingar þurft að horfa á Valsmenn, FH, Blika og Stjörnuna byggja upp sín svæði svo eftir hefur verið tekið.

Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR og bróðir Rúnars, leiðir vinnu um að endurskipuleggja Frostaskjól og fékk sá er þetta skrifar að kíkja á hugmyndirnar sem eru á borðinu. Það verður að viðurkennast að verði helmingurinn af hugmyndunum að veruleika verður KR-svæðið huggulegra en flest íþróttasvæði landsins. Jónas vill að sjálfsögðu sjá allt verða að veruleika með tveimur stúkum um völlinn, knatt- og íþróttahúsi auk þess sem félagsheimilið verður endurbyggt.

„Auðvitað vildu allir KR-ingar að hér væru búnar að eiga sér stað einhverjar breytingar. Að aðstaðan hefði batnað í takt við hin félögin því KR hefur setið á hakanum. Auðvitað er þetta allt pólitík. En það er margt farið af stað og það er betra að gera það sem á að gera vel. Ég held að menn séu að horfa fram í tímann og ætli að nýta þetta litla svæði sem við höfum sem allra, allra best,“ segir Rúnar.

Aðstaðan hjá KR, sem eitt sinn var stærsti og flottasti völlur landsins, hefur lítið breyst frá því að stúkan var stækkuð og þak sett á. En allt horfir þetta til betri vegar. Jónas bendir á að Valsmenn hafi verið í mörg ár að berjast við kerfið og það hafi tekið félagið langan tíma að komast á þann stað sem það er á núna.

Rúnar segir að það skipti máli að æfa á einum og sama stað. Það geti verið þreytandi til lengdar að þvælast fram og til baka úr Vesturbænum og upp í Egilshöll með allan æfingafatnað og þau tæki og tól sem þarf til æfinga.

„Það er mikilvægt að geta æft á einum og sama stað. Þegar ég var að þjálfa síðast hér á landi þá vorum við í Kórnum og þá þarf að fylla skottið á bílnum af boltum og keilum og öðru tilfallandi. Svo var það Egilshöll seint á kvöldin. En það er enginn svo sem að væla yfir þessu, þetta er það sem við búum við, en vonandi munum við ná að breyta þessu með betri aðstöðu í Vesturbænum í framtíðinni. Það myndast ákveðin stemning þegar leikmenn koma saman inni í sama klefa, þessi klefastemning. Þá er leikmaður með allt sitt dót á sama stað og allt auðveldara.“

Vildi komast út að þjálfa

Rúnar tekur við starfi Willums Þórs Þórssonar sem stýrði KR í eitt og hálft ár. Rúnar hefur þjálfað norska félagið Lilleström og belgíska félagið Lokeren síðan hann hætti með KR-liðið eftir 2014 tímabilið. Hann var látinn fara á báðum stöðum.

Rúnar var með KR-liðið frá 2010 til 2014 og á þeim tíma vann liðið fimm titla, tvo Íslandsmeistaratitla (2011 og 2013) og þrjá bikarmeistaratitla (2011, 2012 og 2014). KR vann titil síðustu fjögur tímabilin sem Rúnar var með liðið.

Hann var á sínum tíma leikmaður KR og lék 140 leiki með liðinu í efstu deild frá 1987 til 1994 og svo 2007. Hann er eini leikmaður karlalandsliðsins sem hefur náð því að spila yfir hundrað landsleiki fyrir Íslands hönd. KR endaði í fjórða sæti Pepsi-deildar karla á síðasta tímabili og missti af Evrópukeppninni. Sumarið 2018 verður fyrsta sumarið í áratug þar sem KR-ingar eru ekki í Evrópukeppni.

„Þegar ég fór í það að þjálfa KR á sínum tíma var ég harðákveðinn í því að gera það af fullum krafti. Ég vildi ná árangri og vildi komast út að þjálfa. Ég náði mér í þær gráður sem til þurfti og ætlaði mér alla leið í þessu. Það gekk allt eftir og ég komst út. Því miður náði ég ekki að festa mig í sessi þarna úti. Hlutirnir gengu bara ekki alveg upp og ég var látinn fara. Það var sárt að missa starfið því ég hefði ég viljað vera aðeins lengur úti og búa mér til meira nafn þarna úti.

Ég vissi það að ef hlutirnir myndu ekki ganga upp þarna úti gæti maður alltaf flutt aftur heim Hér er yndislegt að vera og fallið er því ekki neitt. Ég hafði val um nokkra staði en hjartað slær fyrir KR og hér er góður hópur af fólki og leikmönnum og ég valdi frá hjartanu. Manni rann blóðið til skyldunnar og það vó mest í því að ég skrifaði undir hjá KR.“

Koma Rúnars aftur í KR hefur vakið von í brjósti Vesturbæinga og annarra KR-inga enda hefur gengi liðsins verið dapurt að undanförnu og tekur KR ekki þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn í áratug. Hann er spenntur fyrir að takast á við komandi verkefni. Vísir/Anton Brink
Vantar fagmennsku í flest lið

Í skýrslu Borgarbrags, sem KR lét vinna fyrir sig, kemur fram að aðstöðumál KR hafa lengi setið á hakanum og nauðsynlegt sé að endurnýja ýmis mannvirki félagsins. Auk þess verður reist blönduð byggð meðfram svæðinu og aðstaða til knattspyrnuiðkunar bætt til muna með byggingu knatthúss, nýs keppnisvallar af fullkominni gerð, auk nýrra áhorfendastúkna beggja vegna vallarins.

„Þetta er starf sem er búið að vera í gangi í nokkur ár og hefur breyst eitthvað frá fyrstu hugmyndum. Ég hef mínar skoðanir á svæðinu en ég hef ekki haft neina aðstöðu til að gauka hugmyndum að en ef ég er spurður er það sjálfsagt mál. Ef það á að vera nýr völlur þá þarf meistaraflokkur að hafa sína klefa og aðstöðu sem er hægt að nota allt árið. Þá er hægt að gera þetta af meiri fagmennsku,“ segir Rúnar.

Hann bætir við að helsti munurinn á að þjálfa KR, Lilleström og Lokeren sé að erlendis sé aðeins hugsað um fótbolta. Í KR séu margar deildir. „Hér eru níu íþróttagreinar. Ekki það að skíðadeildin sé mikið hér í Frostaskjóli. Fótbolti og karfan eru mjög stór og barnastarfið sömuleiðis. Úti er bara fótbolti og ekkert annað og umgjörðin því mjög góð.

Öll umgjörð í kringum A-landsliðið til dæmis hefur batnað gríðarlega eftir að Lars Lagerbäck kom. Það finnst öllum frábært og breytingarnar þar eru miklar. Ef við ætlum að þróa fótboltann áfram þá þurfa félögin að fara í þetta saman. Aðeins að setja meira púður í umgjörð. Meistaraflokkar KR eru andlit félagsins og við erum að reyna ná árangri. Ef við ætlum að bæta menn og félagið um leið þá þarf að bæta aðstöðuna og umgjörð. Það vantar meiri fagmennsku í flest félög – og ég undanskil KR ekkert frá því,“ segir Rúnar.

Hann segir að algengt sé, bæði í Noregi og Belgíu, að „minni“ félögin þar eyði frekar meiri peningum í leikmenn en aðstöðu, og stór munur sé á aðstöðu og umgjörð „litlu og stóru“ félaganna. Þegar hann kom til Lokeren tók hann eftir því að búningsklefarnir voru nánast eins og þegar hann var að spila þar. Gamli skápurinn hans var meira að segja enn uppi. „Það er mismikið fjármagn sem félög hafa og menn eyða frekar meiri peningum í einn leikmann en í aðstöðu. Það upplifði ég í Lilleström og eins í Lokeren.

Það gleymist oft að huga að þrifnaði og öðru þannig að mönnum þyki notalegt að koma til æfinga og vinnu. Stóru klúbbarnir úti hafa þetta tipp topp en ég upplifði þetta bæði í Noregi og Belgíu. Þar voru skelfilegir búningsklefar og það er nú bara þannig að öll smáatriði þurfa að vera í lagi til að ná árangri og þau þurfa ekki endilega að kosta mikið.“

Hann segir að fótboltamönnum finnist leiðinlegt að koma inn í klefa sem er skítugur og utanumhald um fatnað ekki í lagi. Það geti skilað sér í töpuðum stigum og því verði þessir hlutir að vera í lagi.

„Fótboltamenn eru þannig að þeir vilja hafa hlutina í lagi og þeir vilja hafa snyrtilegt í kringum sig. Fótboltamönnum finnst leiðinlegt að koma inn í klefa þar sem grasið er enn á gólfinu og skítur úti um allt. Auðvitað eiga þeir hlut að máli og þeir eru ekki alltaf þeir allra þrifalegustu. En, þó að leikmenn geri sitt þá vilja þeir að það sé þrifið af sér, fötin séu klár þegar mætt er á æfingu, vestin hrein og sumum kann að finnast þetta ómögulegt en svona er þetta alls staðar í heiminum. Ef smáatriðin eru ekki í lagi – eins og ef það vantar einn bol hjá einhverjum sem dæmi, eða nærbuxurnar sem settar voru í þvott daginn áður skila sér ekki – þá myndast pirringur og það þarf oft lítið til að slá menn út af laginu. Þá fara menn að kvarta og þegar það gerist inni í klefa þá er það fljótt að breiðast út. Bara það getur getur gert það að verkum að stig tapast.

Við getum gert ýmislegt hér í KR sem bætir umgjörðina og ég er ekki að segja að við þurfum að vera eins og hjá Manchester City, bara eftir okkar fremsta megni. Strákarnir vita hvað við getum gert og hvað við getum ekki gert. Þau atriði sem kosta okkur ekkert þurfa að vera í lagi.“

Þjálfarateymi KR er nú fullmannað en Rúnar hefur fengið þá Bjarna Guðjónsson og Kristján Finnbogason til liðsins. Báðir þekkja þeir vel til hjá félaginu og annað eins samansafn af sigurvegurum er vandfundið í íslenskum fótbolta. Alls hafa þeir unnið ansi marga Íslandsmeistaratitla.

Mun eftir fremsta megni gefa ungum strákum séns

„Við förum varlega af stað inn í veturinn. Ég þarf að fara yfir leikmannahópinn og fylla í eyðurnar. Auðvitað byrjum við að skoða hvað er til í félaginu og gefa þeim, sem eru það góðir og hafa unnið fyrir því, sénsinn. Það eru fullt af efnilegum strákum í félaginu. Það má ekki gleyma að KR varð Íslandsmeistari í öðrum flokki, A og B. Það er efniviður til í Frostaskjóli og ég segi að séu menn nógu góðir þá spila menn. Ef það vantar eitthvað upp á þá þarf að bæta það og laga. Það er rómantík í því að ala upp leikmann og láta hann spila fyrir félagið og ég skil hana. Mér finnst hún frábær. Fólkinu í hverfinu myndi finnast það yndislegt ef það væru aðeins uppaldir leikmenn í KR. En staðreyndin er sú að þá væri KR ekki í efri hlutanum.

Það koma einn til tveir á ári upp úr öðrum flokki og inn í meistaraflokk. Svo eru undantekningarár þar sem gullkynslóð kemur inn og þrír eða fjórir koma upp.“

Hann segir að hann muni eftir fremsta megni gefa ungum strákum séns. Enda nægur tími til að skoða þá og fyrir guttana að sýna sig og sanna.

„Maður reynir eftir fremsta megni að gefa leikmönnum séns og ég mun gera það áfram. Sérstaklega yfir vetrarmánuðina þar sem við höfum tækifæri til að gefa strákum heilu leikina og margar mínútur. Maður sér fljótt hvort þeir hafi eitthvað í þetta að gera. Það er hagkvæmt fyrir klúbbinn á allan hátt að taka þessa stráka inn. Og það er mín ósk og ósk allra í KR að ala hér upp góða drengi og meistaraflokksleikmenn.“

Hann bendir á að KR sé ekki aðeins að ala upp leikmenn sem séu á leið í atvinnumennsku og stefni á landsliðið í knattspyrnu. Nálaraugað sé lítið og það þurfi að huga að öllum. „Við erum líka að ala upp góða menn og einstaklinga. Sinnum öllum sem hafa áhuga. Það eru ekki allir sem hafa það að markmiði að enda í Barcelona, Liverpool eða Juventus.

Þetta er spurning um lífsstíl, vera í íþróttum og vera með vinum sínum. Það þarf að skilja á milli hverjir eru að njóta þess að hugsa um félagslega þáttinn en svo eru kannski einhverjir sem eru metnaðarfullir og sjá í hillingum að verða atvinnumaður.

Við þurfum að hlúa að öllum og nálaraugað er lítið þegar leikmenn koma upp í meistaraflokk. Markmið félagsins er ávallt og hefur alltaf verið að spila á sem flestum uppöldum. En á sama tíma vilja allir vinna. Það er allt vitlaust því félagið endaði í fjórða sæti. Fyrir því eru trúlega margar ástæður en það má ekki gleymast að það er stutt á milli. Ef KR hefði unnið Fjölni í næstsíðustu umferð þá hefðu þeir farið í úrslitaleik um annað sætið gegn Stjörnunni í síðustu umferðinni.

Það voru margir búnir að dæma KR úr leik þegar 5-6 umferðir voru eftir og sjálfsagt margir leikmenn búnir að missa trúna. En samt fengu þeir séns á að ná Evrópusæti fram á næstsíðustu umferð og það sýnir manni að maður má aldrei missa trú á verkefninu eða gefast upp.“

Árangurinn með KR kom Rúnari út til Lille­ström þar sem hann vann við erfiðar aðstæður.vísir/anton brink
Íslenskir þjálfarar geta þjálfað erlendis

Rúnar segir að íslenskir þjálfarar geti vel þjálfað erlendis en fáir íslenskir þjálfarar hafa reynt fyrir sér á erlendri grundu. Teitur Þórðarson, Guðjón Þórðarson, Rúnar og Ólafur Kristjánsson hafa verið fánaberar á hliðarlínunni erlendis. „Samböndin skipta máli. Það er erfitt fyrir íslenskan þjálfara sem hefur aldrei spilað erlendis og þekkir enga erlendis að ætla að þjálfa þar. Lið í Noregi og Svíþjóð eru ekki að skoða þjálfara sem eru að standa sig vel á Íslandi. Framboðið er svo gríðarlegt.

Umboðsmenn liggja í félögunum og dæla inn nöfnum. Eini möguleikinn er að umboðsmenn setji nafn þeirra í pottinn og eitthvert lið ákveði að taka sénsinn en það er lítill sem enginn möguleiki.

Ástæðan fyrir því að ég komst út og hugsanlega Óli Kristjáns er að við spiluðum í deildunum. Við þekkjum fólk og það þekkir okkur. En það er ekki bara það. Það þarf auðvitað að sýna árangur. Ef ég hefði alltaf lent í fimmta sæti með KR þá væri enginn að spá í mér. Það þarf líka að skilja eftir eitthvað úti. Karakter, eða hafa staðið sig vel eða eitthvað álíka. Ef ég hefði verið skíthaus eða enginn hefði fílað mig í félaginu þá hefði aldrei verið hringt.“

Árangurinn með KR kom Rúnari út til Lille­ström þar sem hann vann við erfiðar aðstæður. Þegar búið var að reyna allt annað var ákveðið að skipta um þjálfara enda liðið í fallbaráttu. Hann ákvað að taka sénsinn í Belgíu og taka við Lokeren, jafnvel þótt hann þekkti vel til forsetans sem hafði rekið 22 þjálfara á 21 ári sem eigandi liðsins.

„Ég hafði alltaf verið í sambandi við bæði félögin. Það er ástæða fyrir því að maður fékk sénsinn, og að ég náði góðum árangri hér á Íslandi með KR.

Það gekk vel með Lokeren og forsetinn gaf mér nýjan samning í mars og var ánægður með mig. Við náðum þeim markmiðum sem við settum okkur. Í upphafi tímabilsins gerðum við gríðarlegar breytingar. Við Arnar Þór Viðarsson, aðstoðarþjálfari minn, gerðum nýjan lyftingarsal frá grunni. Unnum í honum sjálfir því forsetinn, þrátt fyrir alla sína peninga, tímdi ekki neinu. Við bættum aðstöðuna mikið og keyptum tæki og tól, GPS-vesti og fleira og byrjuðum að nota verkfæri sem önnur lið voru að nota. Svo var þetta bara skyndilega búið. Öll þessi vinna og metnaður sem ég var búinn að leggja í þetta, þessu var bara kippt undan manni.“

Pólitík og þrýstingur bak við tjöldin

Hann hefur áður minnst á að brottreksturinn frá Lokeren var erfiður og kom honum algjörlega í opna skjöldu. Hann er einnig sannfærður um að hefði hann haldið áfram með Lokeren hefði hann ekki verið með lakari árangur.

„Ég átti 23 mánuði eftir af samningum mínum við Lokeren. Það myndast pólitík og þrýstingur bak við tjöldin. Forseti og eigandi félagsins vildi bara fá til baka þjálfara sem nokkrum árum áður hafði náð frábærum árangri með félagið og var á lausu. Einhver setti pressu á forsetann og ef það gerðist ekki þennan dag væri hann farinn í annað félag og því fórnaði hann mér bara. Ég var með æfingu á miðvikudagsmorgni og við vorum að vinna inni á skrifstofu þegar ég er beðinn að koma til framkvæmdastjórans. Hann sendi mig til forseta félagsins sem sagði mér þetta og tilkynnti um ákvörðunina og það var ekkert hægt að hagga henni. Lokeren er núna með 1,1 stig að meðaltali í leik. Ég hefði náð því leikandi – ég er sannfærður um það.“

Það var því lítið annað að gera en að setja allt í kassa upp á nýtt og flytja til Íslands þar sem hlýr armur KR tók á móti honum. Hann segir að stelpurnar hans, Thelma og Tanja, hafi komið reynslunni ríkari frá þessu ævintýri enda tali þær nú tvö tungumál til viðbótar reiprennandi.

„Þessi tvö skipti hafa verið þægileg. En ég ætlaði að vera í þrjú ár í Noregi en var í tæp tvö. Þetta hefur verið frábær skóli fyrir þær. Það var pínu erfitt í byrjun og alls ekki auðvelt.

Það er ekki auðvelt að flytja og þetta er álag á fjölskylduna en það voru allir til í að fara til Belgíu þegar það bauðst. Þegar maður fer út í slíkt verkefni þá býst maður við að vera lengur. Við vorum þar í tíu mánuði og dætur mínar rétt komnar í enskuskóla og græddu gríðarlega mikið á því. Ég gat ekki verið að bíða eftir öðru tækifæri upp á von og óvon. Stelpurnar fara nú í sitt umhverfi en þær eru tveimur tungumálum ríkari. Það er yndislegt að búa á Íslandi og við erum búin að búa 15 ár erlendis en það eru plúsar og mínusar alls staðar.“

Hvatning Ernu ómetanleg

Hann segir að eiginkona hans, Erna María Jónsdóttir, hafi verið stoð hans og stytta, ekki aðeins í gegnum þetta ferli heldur einnig frá því að hann var leikmaður.

„Ég er gríðarlega heppinn og Erna hefur fylgt mér frá því ég flutti til Svíþjóðar að spila 1995. Hún hefur tekið á móti mér í alls konar ástandi eftir leiki. Hún hefur verið minn besti gagnrýnandi og er dugleg að benda mér á en einnig hvetur hún mig áfram þegar ég þarf á því að halda. Hún er ekki bara já-manneskja heldur segir það sem henni býr í brjósti og lætur mig vita. Hún hefur stutt mig alveg gríðarlega og það er oft ágætt að einhver bendi manni á að kannski var vandamálið bara manni sjálfum að kenna.“

Rúnar segir að þau Erna hafi alltaf búið sér til heimili hvar sem þau stigu niður fæti. Leigðu ekki bara eitthvert hús með mublum. „Við höfum alltaf tekið allt með okkur og látið okkur líða vel í okkar eigin húsnæði. Við vorum í tíu mánuði í Belgíu og rétt að koma okkur fyrir. Við fluttum allt frá Íslandi til Noregs, frá Noregi til Belgíu og nú aftur til Íslands. Á aðeins nokkrum árum. Það er því komið nóg af flutningum. Þetta er orðið ágætt. Nú er miðpunkturinn í Frostaskjólinu,“ segir hann en bendir á að það sé ævintýraþrá í þeim og því aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×