Innlent

Þorsteinn segir ekki hafa verið tilefni til stjórnarslita

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra vísir/ernir

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir Viðreisn í fráfarandi ríkisstjórn, segir ekki hafa verið tilefni til að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu. Hann segir vonbrigði hvernig málinu hafi lyktað og segir Bjarta framtíð hafa mátt bíða með að „sprengja“ ríkisstjórnina.

Gríðarleg vonbrigði hvernig fór með ríkisstjórnina
Þorsteinn var gestur í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgunni í morgun, ásamt Gunnari Braga Sveinssyni, frambjóðanda Miðflokksins, og Helgu Völu Helgadóttur, frambjóðanda Samfylkingarinnar.

Gunnar Bragi reið á vaðið í þætti dagsins og ræddi óstöðugleika í stjórnmálum, sem hann telur m.a. tilkominn vegna þrýstings frá samfélagsmiðlum. Þá sagðist hann ekki halda að auðveldara yrði að mynda ríkisstjórn eftir komandi kosningar en þær síðustu.

Þorsteinn tók undir orð Gunnars Braga og sagði örlög síðustu ríkisstjórnar hafa verið vonbrigði.

„Það voru gríðarleg vonbrigði hvernig fór með þessa ríkisstjórn og eins og hefur nú komið á daginn þá var þetta aldrei tilefni til að sprengja stjórnarsamstarf. Menn þurfa að geta staðið í lappirnar,“ sagði Þorsteinn.

Björt framtíð hefði betur mátt bíða
Inntur eftir því hvað hann ætti við með þessum ummælum ítrekaði Þorsteinn að ekki hefði verið tilefni til að slíta stjórnarsamstarfinu.

„Málið sem varð á endanum stjórninni að falli, þegar ríkið var fallið og þegar búið var að fara í gegnum það eins og við kölluðum eftir, þá var ekkert tilefni í því máli til að fara að sprengja stjórnarsamstarf,“ sagði Þorsteinn og vandaði fyrrverandi samstarfsflokki sínum, Bjartri framtíð, sem á endanum sleit samstarfinu, ekki kveðjurnar.

„Þar hefði Björt framtíð betur mátt bíða og sjá hvernig málið væri nákvæmlega vaxið áður en það væri hlaupið út undir sér á næturfundi að sprengja ríkisstjórn.“

Í tilkynningu um samstarfsslitin sagði Björt framtíð ástæðu þeirra vera „alvarlegan trúnaðarbrest innan ríkisstjórnarinnar.“ Í kjölfar stjórnarslitanna í síðasta mánuði ályktaði ráðgjafaráð Viðreisnar enn fremur að nauðsynlegt væri að rannsaka embættisfærslur forsætis- og dómsmálaráðherra sem leiddu til stjórnarslita áður en gengið verður til kosninga.

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Þorstein, Gunnar Braga og Helgu Völu í heild sinni.


Tengdar fréttir

Bjarni segir stefna í myndun vinstristjórnar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, segir stefna í vinstristjórn undir forystu Vinstri grænna með stóraukinni útgjaldaaukningu og ríkisfjármálastefnu sem myndi leiða til verðbólgu og hærra vaxtastigs.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.