Erlent

Varaforsetinn gekk út af fótboltaleik vegna mótmæla

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Pence sagðist ekki getað verið viðstaddur viðburð þar sem hermenn landsins og fáni væru virtir að vettugi.
Pence sagðist ekki getað verið viðstaddur viðburð þar sem hermenn landsins og fáni væru virtir að vettugi. Vísir/Getty
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, gekk út af leik í NFL deildinni í dag eftir að nokkrir leikmenn neituðu að standa upp þegar bandaríski þjóðsöngurinn var spilaður.

Pence sagðist ekki getað verið viðstaddur viðburð þar sem hermenn landsins og fáni væru virtir að vettugi.

Frá þessu greindi Pence á Twitter síðu sinni í dag. Um var að ræða leik í heimaríki hans, Indiana og léku Indianapolis Colts á móti San Francisco 49ers.

Donald Trump bandaríkjaforseti sagði sjálfur á Twitter að hann hefði beðið varaforsetann að fara ef leikmenn neituðu að standa upp í þjóðsöngnum og sagðist vera stoltur af Pence.

„Allir eiga rétt á sinni skoðun en mér finnst ekki til of mikils ætlast að NFL leikmenn beri virðingu fyrir fánanum,“ skrifaði Pence.

Leikmenn deildarinnar hafa undanfarnar vikur margir hverjir neitað að standa þegar þjóðsöngurinn er spilaður. Aðdragandinn að þessu öllu saman er nokkuð langur en á síðasta leiktímabili neitaði Colin Kaepernick, fyrrum leikmaður San francisco 49ers í NFL-deildinni, að rísa á fætur þegar þjóðsöngurinn var spilaður í mótmælaskyni gegn kynþáttafordómum og harkalegum lögregluaðgerðum.

Eftir mótmæli Kaepernick fóru fleiri leikmenn að leika þetta eftir og krjúpa á kné undir þjóðsöngnum, eða lyfta hnefa á loft. Þess má geta að Kaepernick er ekki á samningi hjá neinu liði í NFL-deildinni sem stendur og vilja margir meina að það megi rekja til mótmæla hans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×