Innlent

KúKú Campers komnir í grimma útrás

Jakob Bjarnar skrifar
Steinarr Lár segir allar aðstæður sem snúa að innviðum í tengslum við ferðaþjónustu talsvert miklu betri í Bandaríkjunum en á Íslandi.
Steinarr Lár segir allar aðstæður sem snúa að innviðum í tengslum við ferðaþjónustu talsvert miklu betri í Bandaríkjunum en á Íslandi.
Hin umdeilda ferðaþjónusta KúKú Campers opnaði útibú í Colorado í Bandaríkjunum í vor. Svo virðist sem þessi hugmynd, að ferðast um með tiltölulega litlum tilkostnaði á skrautlegum sendibíl hvar í má gista, sé að svínvirka. Steinarr Lár, annar eigandi fyrirtækisins segir þá hugmynd alíslenska.

„Ameríkanarnir eru að elska íslenska conceptið. Við settum í 20 bíla til að prufa ytra og hafa þeir verið uppbókaðir í allt sumar,“ segir Steinarr.

Colorado risastór markaður

Þannig virðist hin íslenska ferðaþjónusta vera að sækja í sig veðrið og vaxa, ekki bara á íslenskri grundu heldur utan landsteina einnig. Sem er athyglisvert. Steinarr segir spurður í athugun hvort koma megi fótum undir fyrirtækið víðar um heim en í Colorado.

„Við fáum á hverju ári að minnsta kosti 5 fyrirspurnir frá aðilum sem vilja nýta KúKú vörumerkið í sínu landi. Yfirleitt eru þetta viðskiptavinir sem eru upprifnir og hrifnir af conceptinu.

Vöxtur fyrirækis Steinars hefur verið lyginni líkastur. Fyrir aðeins sex árum stofnaði hann fyrirtækið og þá með einn notaðan sendiferðabíl.
Nú þegar ferðamannastraumurinn er eitthvað að hægja á sér er skynsamlegra að koma fleiri fótum undir stólinn. Colorado er risastór markaður með 80 milljón ferðamönnum sem leita náttúru, frelsi og öryggi og því er það góður staður til að byrja á.“

Steinarr segir þá hjá KúKú hafa komist í kynni við náunga sem heitir Magnús Einarsson. „Solid Íslendingur sem býr í Denver sem hafði samband við okkur með þetta af fyrra bragði. Hann hefur leitt verkefni ytra með glæsibrag og meðal okkar hefur myndast skemmtilegt samstarf. Hann er hluthafi í verkefninu sem er þó íslenskt hugvit, fjármagnað héðan frá Íslandi af mér og Lárusi Guðbjartssyni sem á með mér KúKú campers hér heima.“

Allar aðstæður miklu betri í Bandaríkjunum

Vaxtarverkir hinnar nýju atvinnugreinar á Íslandi hafa verið mjög til umfjöllunar, fréttir af sóðaskap sem svo tengist óburðugri salernisaðstöðu víða um land, hafa farið fyrir brjóstið á landsmönnum. Kúkú Campers hafa fengið á baukinn, þeir hafa þótt ákjósanlegir blórabögglar, bílar sem þeir leigja út eru áberandi en Steinarr og þeir hjá fyrirtækinu hafa svarað fyrir sig.

Steinarr Lár segir að alla aðstöðu betri í Bandaríkjunum, salerni alls staðar og frí bílastæði.
En, í framhaldi af því, hvernig eru aðstæður í Bandaríkjunum í samanburði við Ísland? Eru einhverjar hindranir sem þarf að yfirstíga þar, sem ekki eru á Íslandi og öfugt? Steinar segir þetta ólíkt.

„Allir innviðir fyrir „camping“ er miklu þróaðri úti; allur „infrastrúktur“ er til staðar, mikið um þjóðgarða, salerni alls staðar, frí bílastæði og náttúra mjög vel vernduð með góðum göngustígum, útsýnispöllum, upplýsingaskiltum,“ segir Steinarr.

Önnur nálgun en á Íslandi

Þá segir hann viðskiptavini fyrirtækisins annars eðlis í Bandaríkjunum en á Íslandi: „Í Colorado erum við að þjónusta innfædda eða „locals“ og að stærstum hluta ameríska ríkisborgara. Hér heima eru þetta aftur á móti nær eingöngu erlendir ferðamenn. Kemur þetta til af því að Denver, þar sem fyrsta ameríska útibúið er staðsett, er inni í miðju landi og því langt fyrir útlendinga að sækja.“

Steinarr Lár hefur keyrt á afar frjálslegum auglýsingum í Colorado, líkt og hér heima á Íslandi.
En, það er svo eitt og annað sem er líkt með starfseminni á Íslandi og svo í Ameríku.

„Við höfum ekki náð að anna eftirspurn og hafa öll tæki verið í leigu yfir háannatíma. Þetta gefur okkur góða von um að framtíðin sé björt á báðum stöðum. Við fáum nær eingöngu 5 stjörnu um sagnir bæði hér heima og ytra. Fólk elskar frelsið sem fylgir því að ferðast um í húsbíl og lýsir það sér best í ánægju okkar viðskiptavina.“

Eru ekki hasshausar

Steinarr segir að í báðum löndum kom það þeim hjá KúKú Campers á óvart að umgengi um bifreiðarnar er algerlega til fyrirmyndar. „Farartækið er heimili fólks um þann tíma sem það ferðast og því hugsar fólk mjög vel um húsbílana. Það gefur okkur trú um að fólk hugsi þá jafn vel um náttúruna.“

Steinarr segir að farið hafi verið varlegar af stað hér heima með notaða bíla, fyrir 6 árum, en „í Ameríku fórum við beint í glæný tæki þar sem við getum gengið að því sem vísu að markaðurinn sé til staðar. Á ársgrundvelli sækja 80 milljón ferðamenn Colorado heim og liggur fyrir spá um að það muni aukast enn frekar með lögleiðingu kannabisefna í því fylki.“

Kúkú Campers hafa vakið athygli fyrir frjálslega markaðssetningu sem gengið hefur fram af ýmsum siðprúðum Íslendingnum. Þeir halda sama stílnum í Bandaríkjunum. Eins og sjá má hér neðar.

Steinarr Lár talar um kannabis. Sú umræða hefur ekki náð að þroskast á Íslandi og má til að mynda líta til þess hvernig viðtökur frumvarp Pawels Bartosek um það hefur hlotið í því sambandi. En, eru þeir hjá KúKú Campers að höfða sérstaklega til þeirra sem slík efni nota í auglýsingum sínum?

„Nei, við höfum ekki höfðað sérstaklega til þess hóps en Colorado hefur um langt skeið verið mjög frjálslynt gagnvart kannabisefnum og það hefur þótt eðlilegasta mál að njóta kannabis á tónleikum og öðrum samkomum um margra ára skeið. Við erum ekki neytendur sjálfir en okkur er sagt að sökum þessa séu margir að flytja búferlum til Colorado,“ segir Steinarr sem ekki virðist þjakaður af fordómum til kannabis.

„Gaman að velta upp þeirri staðreynd að Colorado er heilbrigðasta fylki USA með mjög lágt hlutfall offitu, fólk er þarna mjög „outdoorsy“, „actívt“ og hamingjusamt upp til hópa. Colorado er einnig talið öruggasta fylki Ameríku svo þetta er góður staður til að ferðast um, slaka á og njóta náttúrunnar.“

Frekari útrás á teikniborðinu

Kúkú Campers eru með stórhuga áform sem snúa að útrás á teikniborðinu.

„Framtíðaráform okkar er að opna fimm útibú í USA á Vesturströndinni og gefa ferðamönnum möguleika á að taka bíl til dæmis í LA og skila í öðru fylki eins og til dæmis Colorado. Það er mikil eftirspurn eftir þessari þjónustu en hún er ekki til staðar eins og er. Til dæmis væri hægt að rúnta frá LA í gegnum Las Vegas, skoða Grand Canyon, þjóðgarðana í Utha og enda í Colorado. Það væri algert draumafrí.“

Og fleiri markaðir bíða, til dæmis í Kanada og víðar. „En við tökum eitt skref í einu og höfum ekki viljað hafa of hátt um Ameríku þar til við sáum að þetta er komið á koppinn og orðið að veruleika.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×