Innlent

Stjórnstöð ferðamála ekki orðið til að einfalda skipulag ferðamála

Atli Ísleifsson skrifar
Ferðamenn í Reykjavík í fullum herklæðum.
Ferðamenn í Reykjavík í fullum herklæðum. Vísir/andri marinó

Stjórnstöð ferðamála, sem komið var á fót árið 2015, hefur ekki orðið til þess að einfalda skipulag ferðamála. Þetta kemur fram í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um skipan ferðamála sem birt var í dag. Þar segir einnig að mikilvægt sé að endurskoða lagaumhverfi ferðamála og setja fram skýra stefnu um skipan ferðamála.

Í skýrslunni kemur fram að Ríkisendurskoðun telji brýnt að hlutverk og ábyrgð Stjórnstöðvarinnar gagnvart stjórnsýslustofnunum í málaflokknum verði gerð skýrari, meðal annars til að koma í veg fyrir tvíverknað. Stjórnstöðin var á sínum tíma hugsuð sem samhæfingar- og samstarfsvettvangur stjórnvalda og hagsmunaaðila.

Ríkisendurskoðan telur að þó að ferðaþjónusta hafi fengið aukið vægi innan stjórnarráðsins með nýrri skrifstofu ferðamála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti teygi stjórnsýsla málaflokksins anga sína enn víða um stjórnkerfið og hafi snertifleti í flestum ráðuneytum.

„Rík þörf er á að skýra hlutverka og ábyrgðarskiptingu innan málaflokksins til að auka samhæfingu og takast á við breytt umhverfi ferðaþjónustunnar og nýjar áskoranir. Í þessu sambandi ber að minnast þess að ferðamönnum hefur fjölgað hér á landi langt umfram allar spár og er gert ráð fyrir að þeir verði yfir tvær milljónir á árinu 2017. Einnig er mikilvægt að endurskoða lagaumhverfi málaflokksins, m.a. lög um skipan ferðamála,“ segir í skýrslunni.

Nálgast má skýrsluna á vef Ríkisendurskoðunar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.