Formúla 1

Bílskúrinn: Hamilton með rothögg í Japan

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Lewis Hamilton er svo gott sem kominn með aðra höndina á titilinn.
Lewis Hamilton er svo gott sem kominn með aðra höndina á titilinn. Vísir/Getty
Lewis Hamilton á Mercedes er kominn langt með að tryggja sér heimsmeistaratitil ökumanna í Formúlu 1 eftir að hafa unnið í Japan.

Hversu mikil ólukka getur elt Ferrari? Palmer farsinn og frammistaða Red Bull. Liðsskipanir, sem óskað var eftir og ökumaður helgarinnar.

Sebastian Vettel var allt annað en sáttur við árangur helgarinnar. Hann var hins vegar ekki gagnrýninn á liðið.Vísir/Getty
Ólukka Ferrari á sér engin mörk

Þriðja keppnin í röð þar sem Sebastian Vettel getur ekki gert sér miklar vonir, önnur keppnin í röð þar sem slíkt er vegna vélavandræða og í þetta skipti var það vegna kertanna í bílnum.

Eitt þeirra virtist sitja skakkt í og valda aflleysi. Það þýddi að það var öruggara fyrir liðið að hætta keppni til að fórna ekki vélinni og líklegast ekki fá nein stig. Vettel var auðveld bráð á beinu köflunum með lítið afl.

Vettel sagði eftir keppnina: „Núna verðum við að reyna að gera allt sem við getum til að vinna næstu fjórar keppnir og það getum við bara ef bíllinn virkar. Það þýðir ekkert að svekkja sig of mikið á þessu.“

Það virðist lítið að marka orð Cyril Abiteboul.Vísir/Getty
Farsinn í kringum Jolyon Palmer

Staðan er núna sú að Carlos Sainz mun taka sæti Jolyon Palmer hjá Renault strax í næstu keppni en ekki á næsta ári eins og Cyril Abiteboul, liðsstjóri Renault hafði gefið út.

Palmer er því væntanlega ekki að fara að aka Formúlu 1 bíl neitt á næstunni. Abiteboul hafði sagt að Palmer yrði hjá liðinu út árið.

Í annarri yfirlýsingu hafði Abiteboul sagt að fyrsta keppni Sainz fyrir liðið yrði í Ástralíu á næsta ári, það reyndist svo ekki satt.

Það er að því er virðist lítið að marka Abiteboul, hann var búinn að segja að liðið myndi ekki prófa Robert Kubica, sem var svo ekki satt og Kubica fékk að aka bílnum í prófunum liðsins.

Max Verstappen átti mjög góða keppni á Suzuka brautinni.Vísir/Getty
Form Red Bull liðsins

Red Bull bílarnir voru afar sterkir á Suzuka brautinni þegar hún var heitari á sunnudeginum. Í tímatökunni var lítið af sól og brautin frekar köld, það hentar Mercedes vel sem hefur átt í vandræðum með ofhitnandi dekk.

Max Verstappen átti afar góða ræsingu, hann ræsti fjórði og var orðinn annar á fyrsta hring. Hann lét það sæti ekkert af hendi. Hann reyndi alvarlega við fyrsta sætið undir lokin þegar Hamilton lenti í umferð en aflið í Mercedes bílnum var einfaldlega of mikið til að möguleikinn væri raunverulega til staðar.

Daniel Ricciardo var þriðji á ráslínu og þriðji í lokin, hann náði í sinn fyrsta verðlaunapall á Suzuka brautinni. Red Bull liðið hefur verið að vinna þróunarstríðið undanfarið og náð áþreyfanlegum framförum. Það verður spennandi að fylgjast með og sjá hvort Red Bull geti raunar blandað sér almennilega í baráttuna.

Kevin Magnussen leiðir liðsfélaga sinn Romain Grosjean um brautina í Japan.Vísir/Getty
Skortur á liðskipnunum

Esteban Ocon á Force India var á undan liðsfélaga sínum Sergio Perez á brautinni og vildi Perez að liðið skipaði Ocon að hleypa sér fram úr. Force India liðið hins vegar neitaði að taka þátt í því, eðlilega.

Liðið sá einfaldlega fram á að skora 14 stig í heimsmeistarakeppni bílasmiða sem er hellingur í harðri baráttu um fjórða sætið í keppni bílasmiða. Hefði liðið hleypt mönnum sínum í baráttu hefði uppskeran sennilega ekki orðið jafn góð, eins og sagan í ár sýnir. Þeir hafa ítrekað lent saman í baráttu sinni á brautinni. Það hefur andað köldu, þar sem Ocon sakaði Perez meira að segja um að vera að reyna að drepa sig eftir árekstur félaganna í Belgíu.

Sambærileg staða var uppi innan herbúða Haas liðsins. Kevin Magnussen var á undan Romain Grosjean á brautinni. Magnussen var í baráttu við Felipe Massa á Williams. Grosjean kom í talstöðina og sagðist geta tekið fram úr Massa ef Magnussen yrði skipað að hleypa honum fram úr. Haas liðið svaraði einfaldlega að það yrði ekki gert. Magnussen náði svo fram úr Massa með mögnuðum framúrakstri inn í fyrstu beygju. Grosjean gerði það líka, í sömu andrá.

Eftir að þeir voru komnir fram úr Massa átti Grosjean ekki möguleika á að ógna Magnussen svo ákvörðun Haas liðsins var rétt.

Sergio Perez og Esteban Ocon, ökumenn Force India ræða við Max Verstappen.Vísir/Getty
Ökumaður helgarinnar

Max Verstappen var valinn ökumaður keppninnar í formlegri kosningu á heimasíðu Formúlu 1. Blaðamaður ætlar að taka sér það bessaleyfi að vera ósammála.

Esteban Ocon á Force India var maður helgarinnar að mati blaðamanns, hann átti frábæra tímatöku og vegna refsinga sem Raikkonen og Bottas fengu ræsti hann tveimur sætum framar. Hann ræsti fimmti en endaði sjötti. Það gleymist stundum að hann er á sínu fyrsta heila tímabili í Formúlu 1 og hann er að standa hressilega í Sergio Perez, liðsfélaga sínum, sem hefur verið í Formúlu 1 síðan 2011.


Tengdar fréttir

Hamilton: Ég þurfti að hafa mig allan við

Lewis Hamilton landaði 25 stigum í dag með frábærum akstri. Hann vann þar með sinn áttunda kappakstur í Formúlu 1 á tímabilinu. Hver sagði hvað eftir tímatökunni?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×