Erlent

Katalónum vikið úr ESB verði sjálfstæði að veruleika

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Katalónum verður umsvifalaust vikið úr Evrópusambandinu kjósi þeir að lýsa einhliða yfir sjálfstæði. Þetta sagði Evrópumálaráðherra Frakklands í sjónvarpsviðtali í dag. Forseti Katalóníu mun ávarpa þingið á morgun, en ekki liggur fyrir hvort hann hyggist ganga alla leið og lýsa yfir sjálfstæði héraðsins.

Í viðtali dagsins talaði ráðherrann á sömu nótum og ríkisstjórn Spánar hefur gert undanfarna daga, en hún sagði m.a. að þjóðaratkvæðagreiðslan í byrjun mánaðar væri að vettugi virðandi, enda gengi hún gegn stjórnarskrá Spánar. Ef til sjálfstæðisyfirlýsingar kæmi væri hún því marklaus. Þá sagði hún að héraðið ætti ekki framtíð innan Evrópusambandsins ef það lýsti yfir sjálfstæði.

Ekki liggur fyrir hvort Charles Puidgemont forseti Katalóníu muni lýsa yfir sjálfstæði héraðsins þegar hann ávarpar katalónska þingið annað kvöld. Upphaflega stóð til að þingið kæmi saman í kvöld og var búist við stuðningi meirihluta þess við sjálfstæði. Spænski stjórnlagadómstóllinn úrskurðaði þá samkomu aftur á móti ólögmæta, rétt eins og kosningarnar sjálfar. Margir hafa spáð því að Puidgemont muni ekki lýsa formlega yfir sjálfstæði, heldur sé frekar von á einhvers konar táknrænni yfirlýsingu. Varaforsætisráðherra Spánar ítrekaði í viðtali í dag að formlegri sjálfstæðisyfirlýsingu yrði mætt af hörku.

Þó 90 prósent kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni hafi kosið sjálfstæði telja sérfræðingar þó að afar mjótt sé á mununum meðal Katalóna, enda hafi flestir þeir sem styðja áframhaldandi veru innan Spánar sniðgengið atkvæðagreiðsluna. Báðar fylkingar hafa staðið fyrir fjölmennum mótmælagöngum í Barcelona og víðar, og þó vígahugur sé í sjálfstæðissinnum má einnig greina mýkri tón á götum borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×