Menning

Fékk fyrir hjartað og þar með tíma til að skrifa bók

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Stefán Sturla hefur sent frá sér fyrsta reyfarann.
Stefán Sturla hefur sent frá sér fyrsta reyfarann. Mynd/Sigurður Mar
Fuglaskoðarinn er ný bók eftir Stefán Sturlu Sigurjónsson leikara. Eftir hann liggja tvær barnabækur og eitt spurningaspil en Fuglaskoðarinn er fyrsti krimminn.

„Þetta er fyrsta fullorðinsbókin mín og hún er glæpasaga,“ segir Stefán, sem er einnig leikstjóri og kvikmyndagerðarmaður.

„Mér og konu minni, Petru Högnäs, þykir báðum gaman að lesa reyfara og höfðum fíflast með að við þyrftum að skrifa saman bók. Petra er í þannig vinnu að hún hefur ekki mikinn extratíma en fyrir þremur árum fékk ég fyrir hjartað og þurfti að fara í aðgerð og þegar ég var að ná mér eftir það sleit ég hásinina á fótboltaæfingu þannig að samanlagt var ég við rúmið í heilt ár. Þá sat ég með tölvuna á hnjánum og skrifaði og þessi saga varð til.“

Áður hefur Stefán Sturla gefið út tvær barnabækur um Trjálf, fígúru sem hann var með í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum um tíma. Einnig var hann ritstjóri Íslandsspils sem kom út 2002. 

Hann kveðst hafa sent Gísla Má hjá bókaútgáfunni Ormstungu handritið að Fuglaskoðaranum. „Gísli hringdi í mig stuttu síðar og sagði: „Stefán, ég er búinn að vera í pásu í útgáfu í nokkur ár og ég hef aldrei gefið út glæpareyfara.“ Þá bjóst ég við að hann segði næst: Þakka þér samt kærlega fyrir – en þá kom: „En ég ætla að gefa út þessa bók.“ Ég var mjög hamingjusamur með það. Bókarkápan er eftir Gísla Má og samstarfið við hann hefði ekki getað verið betra.“

Stefán Sturla dvelur nú á Höfn en á heima í Finnlandi. „Ég á fjölskyldu í Finnlandi, konu og tvö börn. Við búum í Vasa og eigum líka lítinn hobbíbúgarð, erum með íslenska hesta og hund og kött,“ lýsir hann en hvað er hann að gera á Hornafirði?

„Ég hef umsjón með lista- og menningarsviði framhaldsskólans. Skólinn stendur að veglegum leiksýningum og ég var hér síðasta vetur að leikstýra. Nú er bók Astrid Lindgren, Ronja ræningjadóttir, tekin fyrir í félagsvísindum, bókmenntum, tónlist, myndlist, sviðslist, sönglist og kvikmyndagerð og á vetrarönninni verður gerð sýning út frá henni, annaðhvort okkar eigin leikgerð eða minni sýningar. Það er á hendi nemenda. Á vorönn fá svo nemendur að standa að fleiri listviðburðum. Þetta starf leiði ég.“



En skyldi hann eitthvað fá að starfa að sviðslistum í Finnlandi? „Já, ég hef fengið að leika og leikstýra, bæði í sænsku- og finnskumælandi leikhúsum, reyndar ekki leika á finnsku. En síðustu tvö ár hef ég mest unnið með Rauða krossinum við að reyna að koma rútínu á líf flóttamanna og hjálpa þeim með sínar daglegu þarfir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×