Lífið

Babar á bálköstinn

Stefán Pálsson skrifar
Þótt Babar eigi sér marga unnendur og franska póstþjónustan hafi sett hann á frímerki fyrir nokkrum misserum eru ekki allir jafn hrifnir.
Þótt Babar eigi sér marga unnendur og franska póstþjónustan hafi sett hann á frímerki fyrir nokkrum misserum eru ekki allir jafn hrifnir.

Á árinu 2015 bárust fregnir af tölvuveiru eða njósnahugbúnaði sem gerði sendandanum unnt að njósna um samskipti fólks í gegnum fjarskiptaforrit á borð við Skype. Upplýsingar frá bandaríska uppljóstraranum Snowden urðu til þess að böndin bárust að frönsku leyniþjónustunni. Hugbúnaður þessi hlaut því nafnið Babar, en algengt er að tölvuveirum séu gefin saklaus og vinaleg heiti.

Babars-nafnið var augljós vísun í einhverja frægustu söguhetju franskra barnabókmennta, fílinn Babar. Sögurnar um hann hafa verið í miklum metum meðal barna um allan heim allt frá því að sú fyrsta kom út árið 1931. Sagan hermir að Charles de Gaulle hafi einhverju sinni kallað Babar „frægasta Frakka veraldar“ og sumir unnendur persónunnar ganga svo langt að segja Babar frægustu barnasöguhetju heims að Mikka mús einum frátöldum. Hvað sem þeim vinsældamælingum líður er ljóst að á hverju ári renna háar fjárhæðir í vasa eigenda höfundarréttarins, vegna sölu á bókum, tekjum af sjónvarpsþáttum og hvers kyns minjagripaútgáfu.

Sem fyrr segir hófst ævintýrið árið 1931. Höfundurinn, Jean de Brunhoff, var rúmlega þrítugur rithöfundur og myndlistarmaður frá París. Eiginkona hans, Cécile, sem einnig var listamaður, sagði sonum þeirra sögu fyrir svefninn um ungan fíl sem ferðaðist til stórborgarinnar og tók þar upp ýmsa hætti mannfólksins. Drengirnir heilluðust af sögunni og eftir hvatningu kunningja komust hjónin að þeirri niðurstöðu að hún gæti átt erindi við umheiminn. Jean hóf að skrifa og teikna söguna um Babar. Til stóð að Cécile yrði skráð sem meðhöfundur, en frá því var horfið þegar kom að útgáfu.

Munaðarleysingi í hásæti
Sagan um Babar er í stuttu máli á þá leið að veiðimaður skýtur móður fílsungans, sem flýr í kjölfarið til ónefndrar stórborgar – sem hefur ýmis einkenni Parísarborgar. Þar verður á vegi Babars vinaleg og auðug eldri kona, sem tekur hann undir verndarvæng sinn, kemur honum til mennta og lætur sauma á hann falleg föt. Upp frá því gengur Babar í fallegum grænum jakkafötum, með þverslaufu og svartan harðkúluhatt. Hann keyrir um á fínum sportbíl og er aufúsugestur í veislum fyrirmenna þar sem hann segir frá æskuslóðum sínum.

Babar lætur senda eftir ungum frændsystkinum sínum, sem einnig eru klædd upp eftir tísku mannfólksins og fá að kynnast lystisemdum borgarlífsins. Að lokum yfirgefa þau velgjörðarkonu sína og halda aftur til fílahjarðarinnar. Skömmu eftir að þangað er komið deyr fílakóngurinn eftir að hafa gætt sér á eitruðum sveppum. Babar er krýndur konungur í hans stað og skiptir því á harðkúluhattinum og gylltri kórónu. Í sögulok kvænist Babar svo litlu frænku sinni og þau halda í brúðkaupsferð í loftbelg.

Sagan um Babar sló í gegn um leið og hún kom út og næstu árin kepptist Jean de Brunhoff við að semja nýjar sögur um fílakónginn, sem margar snerust um átök við grannríki nashyrninga. Þverrandi heilsa setti þó strik í reikninginn og árið 1937 lést hann úr berklum á svissnesku heilsuhæli. Hann skildi eftir sig tvær hálfkláraðar sögur í handriti sem ákveðið var að klára og gefa út. Þrettán ára sonur listamannsins, Laurent, fékk það hlutverk að lita sumar myndanna.
Þótt ekkja Jeans lýsti því yfir við dauða eiginmanns síns að ekki skyldu koma út fleiri sögur um Babar ákvað sonurinn Laurent að taka upp þráðinn að heimsstyrjöldinni lokinni. Upp frá því hefur hann sent frá sér fjölda bóka um Babar, þá síðustu árið 2014, þá 89 ára að aldri. Á þessum langa tíma hefur sögusvið sagnanna farið um víðan völl og Babar og vinir hans haldið í ferðalög um fjarlæg lönd og jafnvel alla leið upp í geiminn.

Á síðustu árum hafa vinsælar teiknimyndir fyrir sjónvarp svo haldið nafni Babars enn hærra á lofti. Hægt er að kaupa ógrynnin öll af hvers kyns varningi sem merktur er fílakónginum grænklædda og í nokkrum löndum má finna sérverslanir sem eingöngu selja Babars-varning. Einkum munu Japanir vera hrifnir af slíku glingri.

Úlfur í sauðargæru?
En þótt Babar eigi sér marga unnendur og franska póstþjónustan hafi sett hann á frímerki fyrir nokkrum misserum eru ekki allir jafn hrifnir. Bent hefur verið á að sú mynd sem gömlu sögurnar um Babar drógu upp af lífinu í stórborginni hafi ekki átt neitt skylt við veruleika millistríðsáranna. Þess í stað einkennist hún af fortíðarþrá eftir tímanum fram að fyrri heimsstyrjöldinni og glanslíferni gömlu frönsku yfirstéttarinnar.

Enn beinskeyttari gagnrýni kemur þó fram í bók eftir bandaríska rithöfundinn og menntaforkólfinn Herbert R. Kohl, frá árinu 1996. Hún ber þann sláandi titil: „Ættum við að brenna Babar?“
Skemmst er frá því að segja að niðurstaða Kohls er sú að bókabrennur séu ekki rétta leiðin, en hins vegar finnur hann verkinu allt til foráttu og telur að sagan um Babar geti reynst ungum börnum skaðleg þar sem þau séu berskjölduð gagnvart hvers kyns fordómum og staðalmyndum sem birtast í barnabókum.
Kohl og aðrir gagnrýnendur Babars líta á söguna sem eina samfellda réttlætingu á kenningum um yfirburði evrópskrar menningar gagnvart afrískri, auk dýrkunar á efnislegum gæðum. Þau benda á að Babar sé að sönnu hryggur yfir að missa móður sína, en jafni sig þó furðu fljótt um leið og gamla frúin tekur að hlaða á hann gjöfum.

Við komuna til fílahjarðarinnar verður Babar nær samstundis óskoraður leiðtogi vegna þess að hann hefur tileinkað sér siði vestrænna manna. Hann gengur á tveimur fótum í fínu jakkafötunum sínum á meðan þegnarnir, hinir fílarnir, eru „naktir“ og á fjórum fótum. Hann er líka sá eini sem á veraldlegar eigur, sem virðist á einhvern hátt gera hann öðrum æðri.

Þegar sagan um Babar er lesin með þessum gleraugum kemur út ansi ólík mynd en við erum vön. Í stað þess að vera hugljúf frásögn af munaðarleysingja sem nær langt í lífinu fyrir sambland af eigin dugnaði og aðstoð frá góðu fólki endurspeglar hún evrópskan nýlenduhroka.

Fordómar læðast víða
Samkvæmt þessari túlkun falla ævintýri Babars í stóran flokk barnasagna frá fyrri hluta tuttugustu aldar sem gefa bjagaða mynd af Afríku og íbúum hennar. Frægt dæmi um það er myndasagan um Tinna í Kongó, þar sem ungi belgíski blaðamaðurinn heldur til Afríku, reynist innfæddum langtum hæfari á öllum sviðum og verður sjálfkjörinn leiðtogi þeirra. Raunar er lotning fákænu svertingjanna í sögunni fyrir vestrænu valdi slík að þeir krýna jafnvel hundinn Tobba sem konung og tilbiðja sem hálfguð.

Í endurútgáfum á Tinna í Kongó reyndi höfundurinn Hergé að sníða vandræðalegustu agnúana af sögunni, en þar var þó einkum um að ræða kafla þar sem Tinni fer í veiðiferð og slátrar dýrum í tugatali og makalaust atriði þar sem hann gerir ítrekaðar tilraunir til að fella nashyrning með riffli en ákveður að lokum að sprengja hann í loft upp með dýnamíti. Tilgangslaus dýraslátrunin var ekki talin boðleg í bók fyrir börn og ungmenni, en lítt dulinn rasisminn fékk að standa að mestu óbreyttur.

Staðalmyndirnar af heimskum svertingjum gera það að verkum að útgefendur Tinna-bókanna víða um lönd hafa hikað við að láta Tinna í Kongó fylgja með í ritröðinni. Reglulega berast fregnir af því að endurprentunum á bókinni sé mótmælt, kallað eftir að hún sé bönnuð eða í það minnsta fjarlægð úr bókasöfnum. Hefst þá gamalkunnug umræða um hættur ritskoðunar og hversu langt eigi að ganga í að fordæma gamlar bækur fyrir viðhorf sem teljast ólíðandi í dag en þóttu sjálfsögð á ritunartíma þeirra. Mörgum eru í fersku minni harðar deilur sem spruttu vegna endurútgáfu á Tíu litlum negrastrákum eftir listamanninn Mugg fyrir fáeinum árum, þar sem sömu sjónarmið tókust á.

Enn sem komið er virðast þó fáir hafa hlýtt kallinu um að setja Babars-bækurnar á svarta listann. Þær eru enn sem fyrr í miklum metum og fátt bendir til að iðnaðurinn í kringum jakkafataklædda fílakónginn muni minnka í bráð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.