Enski boltinn

Mourinho segir ómögulegt að hvíla Lukaku

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Romelu Lukaku og Jose Mourinho
Romelu Lukaku og Jose Mourinho Vísir/Getty
Belgíski sóknarmaðurinn Romelu Lukaku hefur farið frábærlega af stað í búningi Manchester United eftir að hafa verið keyptur til enska stórliðsins frá Everton í sumar. Lukaku hefur skorað tíu mörk í níu leikjum og verður í eldlínunni í dag þegar Man Utd fær Crystal Palace í heimsókn.

Jose Mourinho, stjóri Man Utd, hrósar Belganum í hástert. Þeir eru nú að vinna aftur saman en síðast þegar þeir unnu saman hjá Chelsea losaði Mourinho sig við Lukaku. „Hann leggur mjög hart að sér og hugsar vel um sig. Hann lifir mjög heilbrigðu lífi og er metnaðarfullur. Hann á eftir að verða einn besti leikmaður heims. Kröfurnar hjá Manchester United eru svakalegar og hann stenst þær.“

Lukaku hefur spilað alla leiki Man Utd í ensku úrvalsdeildinni til þessa og segir Mourinho að það komi ekki til greina að gefa þessum 24 ára gamla markaskorara hvíld.

„Á meðan við erum án Zlatan getum við ekki leyft okkur að hvíla Lukaku, sérstaklega á meðan Marcus Rashford er að spila aðra stöðu. Þar til Zlatan snýr aftur getum við ekki leyft níunni okkar að hvíla sig líkt og við reynum að leyfa öðrum leikmönnum að gera,“ segir Mourinho.

Framundan er landsleikjahlé og er Lukaku að sjálfsögðu í landsliðshópi Belga. Belgía hefur tryggt sæti sitt á HM í Rússlandi og vonast stuðningsmenn Man Utd eftir því að Roberto Martinez noti Lukaku sparlega í komandi landsliðsverkefni.

„Það er á ábyrgð Roberto og það er hans ákvörðun hvort hann spilar Lukaku eða ekki. Ég get ekki haft áhrif á þá ákvörðun,“ segir Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×