Innlent

VG stærsti flokkurinn í nýjum þjóðarpúlsi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkur eru samanlagt með 48,5% fylgi.
Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkur eru samanlagt með 48,5% fylgi. visir/anton brink
Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur mest fylgi flokka samvkæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups. RÚV greinir frá. Vinstri grænir mælast með 25,4% fylgi en flokkurinn mældist sömuleiðis stærstur í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, með 28,8% fylgi.

Könnun Gallup var gerð frá 15. til 28. september en Félagsvísindastofnun framkvæmdi sína könnun 24. til 28. september.

Sjálfstæðisflokkurinn er næst stærsti flokkurinn með 23,1% fylgi samkvæmt Gallup, Píratar með 10,3%, Flokkur fólksins með 10,1%, Framsóknarflokkurinn með 9,9% fylgi og Samfylkingin 9,3%. Björt framtíð mælist með 4,6% fylgi og Viðreisn 3,6%.

Flokkarnir mynduðu síðustu ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki en næðu ekki manni á þing miðað við þessar tölur. Þetta var líka niðurstaða könnunar Félagsvísindastofnunar.

Aðrir flokkar mælast samanlagt með 3,7% fylgi. Þar fékk Miðfokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar rúm 2%. Flokkurinn er þó nýr af nálinni en könnunin var gerð á dögunum 15. til 28. september.

Tæplega 7% taka ekki afstöðu eða vilja ekki gefa hana upp. Um 6% myndu skila auðu eða ekki kjósa.

Um netkönnun var að ræða og var úrtakið 4.092. Þátttökuhlutfall var 60%.

Fjallað var um niðurstöðu könnunar Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×