Viðskipti innlent

Fjárfestingafélagið Helgafell hagnast um 1.130 milljónir

Hörður Ægisson skrifar
Sá sem stýrir fjárfestingum Helgafells er Jón Sigurðsson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri FL Group.
Sá sem stýrir fjárfestingum Helgafells er Jón Sigurðsson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri FL Group.
Helgafell eignarhaldsfélag, sem er í jafnri eigu Bjargar Fenger, Ara Fenger og Kristínar Vermundsdóttur, hagnaðist um 1.134 milljónir króna í fyrra og jókst hagnaðurinn um liðlega 670 milljónir á milli ára. Eigið fé Helgafells nam ríflega 4,2 milljörðum króna í árslok 2016 en stjórn fjárfestingafélagsins leggur ekki til að greiddur verði arður til hluthafa á árinu 2017.

Afkoma félagsins af verðbréfaeign í eigu samstæðunnar var jákvæð um samtals 1.152 milljónir á síðasta ári. Á meðal helstu eigna í verðbréfasafni Helgafells er 2,6 prósenta hlutur í olíufélaginu N1 og 6,64 prósenta hlutur í tryggingafélaginu TM.

Sá sem stýrir fjárfestingum Helgafells er Jón Sigurðsson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri FL Group, en hann er eiginmaður Bjargar Fenger. Jón á meðal annars sæti í stjórn N1. Félög í eigu Helgafells hafa á þessu ári meðal annars komið að kaupum á ríflega helmingshlut í Stoðum, sem á 8,87 prósenta hlut í evrópska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco Garber, og að Gámaþjónustunni.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×