Innlent

Varað við stormi og úrhelli í dag

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það mun blása og rigna hraustlega í dag.
Það mun blása og rigna hraustlega í dag. Vísir/Vilhelm
Veðurstofan varar við stormi í dag, meira en 20 m/s, á Suðausturlandi og miðhálendinu. Landsmenn voru í gær hvattir til að festa lausamuni sem hugsanlega gætu tekist á loft í vindhviðum.

Þá er einnig gert ráð fyrir mikilli úrkomu suðaustantil, syðst á Austfjörðum og Ströndum fram yfir hádegi. Því ætti að gera ráð fyrir einhverjum vatnavöxtum í ám og lækjum á svæðinu.

Norðaustlæg átt verður ríkjandi og má víða gera ráð fyrir 10 til 18 m/s. Það mun einnig rigna um nær allt land í dag. Mun vindur snúast í sunnan og suðaustan 10 til 18 m/s þegar líður á daginn og mun þá stytta upp norðan- og austanlands.

Þá kemur til með að lægja í nótt, á morgun er gert ráð fyrir 5 til 10 m/s á morgun með vætu á köflum um landið sunnanvert en þó tiltölulega björtu veðri nyrðra. Hitinn verður á bilinu 6 til 13 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag og föstudag:

Austlæg átt, 5-10 m/s. Víða bjartviðri norðan- og norðaustanlands, annars væta á köflum og hiti 7 til 13 stig.

Á laugardag:

Útlit fyrir austan hvassviðri eða storm með rigningu víða um land, en úrhellisrigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast N-lands.

Á sunnudag:

Stíf suðlæg átt og rigning með köflum, en lengst af bjart veður norðanlands. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast fyrir norðan.

Á mánudag og þriðjudag:

Hvöss austlæg átt, á köflum talsverð eða mikil rigning sunnan- og vestanlands, en úrkomulítið fyrir norðan. Fremur milt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×