Erlent

Rúmlega 250 látnir í Mexíkó

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fólki hefur verið ráðlagt að reykja ekki á götum úti vegna gasleka.
Fólki hefur verið ráðlagt að reykja ekki á götum úti vegna gasleka. Vísir/Getty
Hið minnsta 248 eru látnir eftir að 7,1 stigs jarðskjálfti reið yfir miðhluta Mexíkós í gærkvöld.

Tugir bygginga hrundu í höfuðborg landsins og hefur forseti landsins, Enrique Peña Nieto, sagt að ein þeirra hafi verið grunnskóli. Rúmlega 20 börn eru talin hafa látist í skólanum og að um 30 séu ófundin í rústum hans.

Jarðskjálftinn reið yfir rétt eftir klukkan eitt að staðartíma, um klukkan sex í kvöld að íslenskum tíma. Upptök skjálftans voru um 120 kílómetrum frá Mexíkóborg og á um 51 kílómetra dýpi. Björgunarstarf hófst skömmu síðar og og unnið er að því að koma íbúum sem fastir eru í rústum bygginga til bjargar.

Sjá einnig: Myndbönd sýna kraft jarðskjálftans í Mexíkó

Stjórnvöld í landinu hafa nú staðfest að um 250 séu látnir eftir skjálftann, þar af 55 í Morelos-ríki sunnan af höfuðborginni og 39 í Puebla. Þá er staðfest að 117 hafi farist í Mexíkóborg.

Engar reykingar á götum úti

Talið er að um tvær milljónir manna séu án rafmagns og símasambands af völdum jarðskjálftans. Þá voru íbúar landsins hvattir til að reykja ekki á götum úti þar sem gasleiðslur kunna að hafa rofnað í skjálftanum.

32 ár voru liðin því, upp á dag, að tíu þúsund manns létust í jarðskjálfta í Mexíkóborg árið 1985. Í frétt BBC segir að jarðskjálftinn í kvöld hafi riðið yfir á sama tíma og haldin var æfing vegna viðbragða við jarðskjálfta.

Fyrr í þessum mánuði reið jarðskjálfti upp á 8,1 stig yfir suðurhluta landsins. Þá létust um 90 manns.

Hér að neðan má sjá nokkur myndbönd sem sýna hversu gríðarlegur skjálftinn var.


Tengdar fréttir

Öflugur jarðskjálfti skók Mexíkó

Skjáftinn olli talsverðu tjóni í höfuðborg landsins, Mexíkóborg, en vitni greina frá því að byggingar hafi verið rýmdar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×