Enski boltinn

Púðurskotavika hjá Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dominic Solanke fór illa með færin í gær.
Dominic Solanke fór illa með færin í gær. Vísir/AFP
Liverpool féll í gær úr enska deildabikarnum eftir 2-0 tap á móti Leicester City. Það vantaði þó ekki lofandi sóknir og færi hjá Liverpool-mönnum eins og í leikjunum á undan.

Leikurinn var enn eitt dæmið um stífan sóknarleik Liverpool-liðsins sem er ekki að skila miklu og á móti þurfa andstæðingarnir ekki mikið til að koma boltanum í netið hinum megin á vellinum.

Liverpool hefur þannig reynt 80 skot í þremur leikjum á innan við viku og aðeins þrjú þeirra hafa endað í markinu. Það gerir aðeins tæplega fjögur prósent skotnýtingu. Skysports fjallar um þetta.

Alex Oxlade-Chamberlain, Philippe Coutinho, Andrew Robertson og Dominic Solanke fengu allir færi í fyrri hálfleiknum á móti Leicester í gær en engum þeirra tókst að skora.

Fyrir vikið þökkuðu Leicester-menn fyrir sig í seinni hálfleiknum, skoruðu tvö mörk og tryggðu sér sæti í næstu umferð keppninnar.

Stórsigur Liverpool á Arsenal er löngu gleymdur. Liðið var skotið niður á jörðina í stóru tapi á móti Manchester City í næsta leik og náði síðan ekki að vinna neinn af þessum þremur leikjum sínum á þessari viku.

Roberto Firmino skaut í stöngina úr víti á móti Sevilla og bæði Sadio Mane og Mo Salah fóru illa með færi í seinni hálfleik í 2-2 jafntefli.

Daniel Sturridge og Dominic Solanke fóru illa með mjög góð færi í 1-1 jafntefli á móti Burnley.

Í leiknum í gær þar sem Dominic Solanke fékk þrjú mjög góð færi þá átti Liverpool þrettán skot í fyrri hálfleik og átta til viðbótar í þeim seinni. Aðeins þrjú þeirra enduðu þó á markinu og ekkert þeirra fór inn.

Það eru ekki góðar fréttir fyrir stuðningsmenn Liverpool að framherjar þeirra séu farnir að skjóta púðurskotum því ekki er vörnin sú traustasta í boltanum.  Haldi þetta áfram verður erfitt fyrir Liverpool-liðið að landa sigrum.

Skot Liverpool í síðustu þremur leikjum:

24 skot á móti Sevilla í 2-2 jafntefli

35 skot á móti Burnley í 1-1 jafntefli

21 skot á móti Leicester í 2-0 tapi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×